Frétt í Morgunblaðinu 7. september 1991

Vöruleiðir-Samskip: Samvinna um vöruflutninga á landi

Vöruleiðir-Samskip: Samvinna um vöruflutninga á landi

 

NÚ UM mánaðamótin hófst samstarf vöruflutningafyrirtækisins Stefnis og Samskipa um vöruflutninga á landi undir nafninu Vöruleiðir-Samskip. Með þessu eru sameinaðir flutningar Stefnis á Akureyri og þeir flutningar sem Landflutningadeild Samskipa á Holtabakka í Reykjavík yfirtók þegar Bifreiðadeild KEA var lögð niður. Með því að sameinast um afgreiðslu þessa huggjast aðilar auka og tryggja þjónustu í landflutningum til og frá Norðurlandi.

Páll Hermannsson, forstöðumaður Landflutningadeildar Samskipa, sagði að hér væri ekki um sameiningu fyrirtækjanna að ræða né yfirtöku annars á hinu. Stefnisbílstjórar ættu áfram bíla sína og ækju þeim en samstarfsfyrirtækið VöruleiðirSamskip sæi um vöruafgreiðslu og markaðsmál. Hagsmunir fælust í því að bílstjórarnir einbeittu sér nú að því sviði sem þeir væru sérfræðingar í, flutningunum sjálfum, en aðrir sæju um rekstur vöruafgreiðslunnar auk þess að afla viðskipta.

Páll sagði að áætlunarferðir flutningabíla yrðu samræmdar, þær yrðu jafntíðar og áður en bílar yrðu nýttir betur. Við það gæti þeim fækkað eitthvað. Vöruleiðir-Samskip hefðu þegar tekið yfir rekstur vöruafgreiðslunnar á Akureyri og í október yrði rekstrarformi Vöruleiða í Reykjavík breytt með svipuðu móti.

Páll sagði vonir standa til að með sameiningunni næðist það meginmarkmið að styrkja þá í samkeppninni og tryggja reglulegar og öruggar áætlunarferðir, góða vörumeðferð og góða þjónustu. Á Akureyri og út frá staðnum væri einhver mesti landflutningamarkaður hérlendis. Þegar allt væri talið væru vikulega um 30 ferðir flutningabíla á vegum Vöruleiða-Samskipa frá Akureyri austur, vestur og suður um land og frá fyrirtækinu færu vöruflutningabílar til allra staða sem slíkt samband hefðu við Akureyri.

Athugasemd 23 árum síðar:

Á árinu 1991 varð Samskip hlutskarpast í útboðið KEA á flutningum með bílum aðallega milli Reykjavíkur og Akureyrar. Bíladeild KEA var lögð niður og Samskip keyptu hluta af flota KEA til flutninganna.

Reglulegir flutningar á landi og samstarfið við Stefnismenn var ánægjulegt, en var talið fyrsta skref í meiri þáttöku Samskipa í innanlandsflutningum. Ég lagði til við forstjóra Samskipa að við ættum að ná yfirráðum í Landflutningum til að koma á góðu flutninganeti um allt land. Ekki var þá nægilegur hljógrunnur fyrir þessu þó almennt væri talið að að þessu ætti að stefna þegar tækifæri gæfist.

Um þetta leyti var fjárhagsleg staða Samskipa veik. Sama gilti um kaupfélögin sem voru eigendur meirihluta Landflutninga hf.

Einhverjum árum seinna varð sameining landflutningastarfsemi Samskipa og Landflutninga og nú eru Landflutningar Samskip stór aðili á landflutningamarkaðnum