Réttur til að verja sig

Um Ísrael og Palestínu í ljósi sögu og samtímaviðburða, um síonismann og andspyrnu heimaþjóðarinnar, og um ábyrgð Vesturlanda, þar á meðal Íslendinga. Niðurstöðurnar eru að rétt sé að slíta öllum samskiptum við hernáms- og aðskilnaðarríkið Ísrael.

Ísraelsmenn hafa rétt til að verja sig

Þennan frasa hafa flestir áhrifamenn heims étið upp eftir þeim sem bera ábyrgð á „stærsta opna fangelsi“ þess heimshluta sem menn hafa viljað kalla vestrænan, Gasa, og stunda nú dráp á saklausum borgunum. Því er gjarna bætt við frasann að í öllum viðbrögðum við árás Hamasliða verði að leggja áherslu á að alþjóðalög séu virt.[1] Þá er algerlega gengið framhjá þeirri staðreynd að árásin og átök undanfarinna ára stafa af því að „þolandinn 7. október“ hefur alls ekki virt alþjóðalög um hernumin svæði eða ákvarðanir Sameinuðu þjóðanna um örlög þess fólks sem rænt var landi og framfærslu árið 1948.

Þeir sem taldir eru eiga þennan rétt er þjóð sem hefur byggt á rasískri hugmyndafræði, aðskilnaðarstefnu. Samkvæmt ísraelska sagnfræðingnum Avi Shlaim er Ísrael eina aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem er rasískt. Síðan 2018 hefur þessi kynþáttastefna, rasismi, verið bundin í „grunnlög“ Ísraels[2] − þar sem segir að einungis gyðingar hafi ákvörðunarrétt um grundvallarmál í ríkinu, þannig að ef svo færi að fólk af arabískum uppruna, Palestínumenn, yrði meirihluti íbúa í Ísraels ‒ héldi það áfram að vera annars flokks borgarar án réttar til áhrifa á skipan samfélagsins. Þetta er rasismi.

Ísrael nýtur í einu og öllu stuðnings Bandaríkjamanna, og vegna Helfararinnar sérstakrar vináttu Þjóðverja. Hér áður fyrr, vegna mikillar áherslu Ísraelsríkis á markaðssetningu falskra upplýsinga, naut ríkið nær óskoraðs stuðnings flestra Evrópubúa. Sá stuðningur hefur tryggt Ísrael − sem landfræðilega er ekki meira Evrópuríki en Líbanon eða Sýrland ‒ aðild að samstarfi Evrópuríkja á borð við Júróvisjón og Evrópumótin í fótbolta. En Ísrael á ekki heima þar!

Árásir þeirra sem hafa „rétt til að verja sig“ í meira en fimm mánuði hafa leitt til þess að meira en 30 þúsund manns hafa verið drepin á Gasa. 25 sinnum fleiri en þeir sem hryðjuverkamenn Hamas drápu 7. október.

Í Ísrael er herskylda – 2 ár og átta mánuðir fyrir karla og 2 ár fyrir konur – og þar er fjölmennur her, vel vopnum búinn. Ef það fyndist lausn sem tryggði jafnan rétt allra íbúa þess svæðis sem Ísrael ræður nú yfir, hernuminna og „ísraelskra“, væri herinn alltof stór, og þeir sem honum stjórna mundu missa áhrif í samfélaginu. Væri viðurkenndur eignaréttur Palestínumanna á öllu landi á hernumdu svæðunum yrði það hlutverk lögregluyfirvalda – ekki hersins – að koma í veg fyrir landrán til frambúðar. Virðing fyrir eignarétti minnkar þörf fyrir afskipti hermanna af landráni. Landræningjarnir eru orðnir það margir að þeir eiga næga fulltrúa á þjóðþinginu í því stjórnmálaumhverfi sem nú ríkir. Alltaf er þörf fyrir atkvæði ræningjanna og þeir fá iðulega ráðherrasæti.

Niðurstaðan er að Ísraelsríki þrífst á ófriði, og það virðist orðin pólitísk nauðsyn að viðhalda ófriði með því að svipta Palestínumenn mannréttindum og nota hvert tækifæri sem gefst til að drepa þá.

Alþjóðasamfélagið þarf að vinna af öllu afli að breytingum á þessu ef von á að vera til friðar til frambúðar.

Í lok þessarar greinar er spurt hvort ekki sé rétt að við Íslendingar höfnum því að umgangast sem jafningja – svo sem í íþróttum og listum – fólk sem bæði að grunnhugmyndum og í verkum tilheyrir annarri öld, öðrum stöðum í sínum daglega rasisma ‒ og þegar tækifæri gefast til vinna að útrýmingu Palestínuaraba. Síonistar hafa notið samúðar vegna sögufölsunar alveg frá upphafi átakanna í Palestínu eftir síðari heimsstyrjöld. Eina leiðin til friðar og sátta á svæðinu felst í því að hafna aðskilnaðarstefnu síonismans.

Hér í greininni verður orðið síonisti notað um ráðamenn í Ísrael og fylgismenn þeirra. Síonismi er sem kunnugt ákveðin stjórnmálastefna, en hugtakið Ísraelsmenn á við ríkisborgara í Ísrael, sem ekki eru allir síonistar, og raunar ekki allir gyðingar, hvort sem með því orði er átt við etnískan uppruna eða trúarbrögð.

Réttur til að drepa, eða hvað?

Látið er að því liggja, innan og utan Ísraels, að vegna þess að hryðjuverkamenn frá Gasasvæðinu, sumir í grunninn ofsatrúarmenn, myrtu á grimmilegan hátt tólf hundruð manns 7. október, þá megi drepa hvern sem fyrir verður í Gasa – sem stundum er kallað stærsta fangelsi heims – eins lengi og síonistum sýnist.

Hamas-samtökin (Harakat al-Muqawama al-Islamiya, orðrétt: Íslamska andspyrnuhreyfingin) hafa ráðið Gasa síðan 2006, lengst af í boði Benjamíns Netanyahus, forsætisráðherra Ísraels. Hann hefur barist með öllum ráðum gegn raunverulegri lausn á þeim vanda sem sambúð herraþjóðarinnar, Ísraelsmanna, og þjóðarinnar sem byggði landið í þúsund ár, Palestínumanna, sem nú eru innilokaðir á Gasa og Vesturbakkanum. Þar eru íbúar fangelsaðir án dóms og laga, og nú virðist herraþjóðin telja sig hafa almennt skotleyfi á þá. Shlomo Brom, fyrrverandi hershöfðingi og staðgengill þjóðaröryggisráðgjafa Ísraels, segir að öflugt Hamas hafi verið Netanyahu nauðsynlegt til að komast hjá öllum samningaviðræðum um stofnun ríkis Palestínumanna.[3]

Ísraelstjórn fer með öll völd á því svæði sem þar til 1948 hét Palestína. Í Ísrael búa aðallega 7 milljónir gyðingar og 2 milljónir ísraelskir arabar, sem hafa að mestu sömu almenn réttindi og gyðingar, þótt þeir njóti ekki fullra grundvallarréttinda. Á hernumdu svæðunum búa 5 milljónir Palestínumanna, 3 milljónir á Vesturbakkanum og 2 milljónir á Gasa, þar sem þeir hafa lítinn sem engan rétt, og nú er unnið að því að fækka þeim með sprengjum og svelti. Alþjóðasamfélagið hefur viðurkennt þennan vanda og gerðar hafa verið tilraunir til að höggva á hnútinn. Mikilvægt skref var stigið árið 1993 þegar fulltrúar Palestínumanna – stjórnmálabandalagið sem stendur að bráðabirgðastjórninni í Ramalla á Vesturbakkanum – viðurkenndu Ísraelsríki.[4] Ísraelsríki hefur á hinn bóginn ekki viðurkennt Palestínu, en kemur fram við stjórnina í Ramallah eins og minniháttar hreppsnefnd.

Ísraelsstjórn hefur barist gegn hvers konar viðurkenningu á rétti Palestínumanna (− líka til að verja sig!). Lengi framanaf hafði Ísrael neitunarvald um þátttöku Palestínumanna í umræðum um eigin framtíð. Forystumenn Ísraelsríkis vildu bara tala við fulltrúa Arabaríkja þegar rætt var um Palestínumenn og rétt þeirra samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Það er raunar í fullu samræmi við þá ofbeldisstefnu sem sú þjóð hefur búið við í 105 ár – sé miðað við hina frægu yfirlýsingu utanríkisráðherra Breta í árslok 1917 þegar Arthur Balfour sagði ríkisstjórn hans hátignar hlynnta því að framtíðarheimili gyðinga yrði á þessu landsvæði. Í þessari yfirlýsingu er talað um Palestínumenn, þá sem höfðu byggt landið í þúsund ár að minnsta kosti, sem „fólk af öðrum trúarbrögðum sem býr þar nú“.

Til að ná samningum um framtíðarstöðu þessara tveggja þjóða, sem alþjóðasamfélagið er sammála um að sé nauðsynlegt, þurfa að vera til tveir fulltrúar, sinn fyrir hvora þjóð, sem hafa vilja og getu til að framkvæma það sem samkomulag næst um. Netanyahu hefur lagt metnað í aðskilnað Palestínumanna á tveimur svæðum, innan girðinga og gaddavírs á Gasa og á Vesturbakkanum, þar sem menn búa við eitthvað skárri kost, en langt frá því sem við mundum kalla mannsæmandi. Þetta fólk hefur langtímum saman ekki haft aðstæður til að velja sér foringja og raunverulega fulltrúa. Hamas-samtökin voru kjörin til forystu á Gasa í síðustu kosningum fyrir 18 árum, 25. janúar 2006. Ekki er samstaða milli Hamas og PLO (Frelsissamtaka Palestínu, undir forystu Fatah), bandalagsins sem er í fyrirsvari fyrir Palestínumenn á Vesturbakkanum. Stuðningur við PLO hefur dvínað á Vesturbakkanum. Stjórnin í Ramalla er ásökuð um spillingu, og leiðtogi bráðabirgðastjórnarinnar, Mahmoud Abbas, þykir orðinn gamall og kraftlaus. Hér má kannski bæta við að reglulegum frjálsum kosningum er ekki síst ætlað að veita hinum kjörnu fulltrúum aðhald.

Meðan á „útrýmingunni“ á Gasa stendur heldur Netanyahu embættinu

Þessi staða er Netanyahu mjög hagfelld – enda á hann verulegan þátt í því að hún er komin upp. Og nú virðist komin upp kjörstaða fyrir foringja Líkúd-flokksins í hægrisinnuðustu ríkisstjórn Ísraels frá upphafi. Það að hafa drepið nálægt 30 þúsund manns – og ekki búið að telja þá sem eru undir rústunum − og svelta 2 milljónir manna er ekki nóg. Enn skal haldið áfram að drepa, að sögn þangað til búið er að ganga milli bols og höfuðs á Hamas-samtökunum og forystumönnum þeirra. En þeir sem ganga til liðs við sveitir Hamas eru úr fjölskyldum sem hafa misst einn eða fleiri, stundum nánast alla, í árásum Ísraelshers.[5] Þar verður því ekki mönnunarvandi næstu ár og áratugi, hversu marga sem Netanyahu og hans menn eiga nú eftir að drepa. Lífsskilyrði og framtíðarhorfur ungs fólks á Gasasvæðinu og í flóttamannabyggðunum á Vesturbakkanum eru slíkar að píslarvætti með Hamas er talið betri dauðdagi en að vera bara drepinn í árásum síonista.

Netanyahu ber sína ábyrgð á völdum Hamas. Og hann ber líka sína ábyrgð á hryðjuverkunum 7. október. Það hefur verið fjárfest duglega í að halda fólki innan gaddavírs á Gasa, bæði í tækjum (sem Hamas lærði að gera óvirk) og í mannafla til að fylgjast með öllum hreyfingum innan girðingar.

Konur í eftirlitssveit Ísraelshers tóku sumarið 2022 eftir æfingum Hamas-liða í alls konar hernaðarskipulagi, líku því sem notað var 7. október. Þær fylgdust með, skráðu og greindu þá ógn sem þetta gæti skapað, og létu yfirmenn öryggisgæslu Ísraelshers vita.[6] Kannski var það vegna þess að upplýsingarnar komu frá konum – en þeir sem báru ábyrgð á öryggi Ísraels höfðu ekki áhuga. Netanyahu hafði í sínu nærumhverfi tekið ábyrgð á Hamas. Hamas var í lagi.

Það þarf ekki að orðlengja þetta. Ef menn hefðu unnið vinnuna sína væru enn á lífi meira en 30 þúsund manns sem nú eru fórnarlömb þessarar hrokafullu afstöðu, Ísraelsmenn og Palestínumenn, og ekki væri búið að sprengja í loft upp stóran hluta íbúðarhúsa og annarra mannvirkja á Gasa með bandarískum sprengjum.

Í fréttum segir að ein ástæðan fyrir ónægum viðbrögðum ísraelska hersins við hryðjuverkum Hamas strax eftir að þeir komust út fyrir girðinguna kringum Gasa hafi verið að mikilvægar hersveitir höfðu verið sendar á Vesturbakkann tveim dögum áður vegna stöðugra árása landræningja á byggðir Palestínumanna − væntanlega til að styrkja ræningjana.[7],[8]

Þá er hernaðar- og öryggisbatterí Ísraels mjög fjölmennt. Ef mannafli hefði verið notaður til að fylgjast með myndavélum og mannskapurinn skipulagður eins og − segjum ‒ hjá björgunarsveitunum á Íslandi, þá hefðu hryðjuverkamenn Hamas í grimmd sinni verið stöðvaðir innan nokkurra stundarfjórðunga. Nei – skipulagið, sem Netanyahu ber ábyrgð á, brást algerlega, með þekktum afleiðingum. Hann er ábyrgur, og væri hann í eðlilegu umhverfi hefði hann verið settur af og annar tekið við, því forystumenn eru ekki endilega ómissandi. Einn forvera hans, Yitzhak Rabin (fyrrum hryðjuverkamaður) var myrtur af manni með svipaðar skoðanir og Netanyahu. Hann segir að málin verði rannsökuð um leið og átökunum ljúki. Samþykki menn það, þá er það mikið hagsmunamál Netanyahus að draga átökin á langinn, og selja innan Ísraels og utan þá lausn að það að drepa 30‒50 þúsund manns leiði til þess að þarna verði aldrei aftur átök. Líklegt er raunar að í plani hans sé beinlínis stefnt að því að fækka Palestínumönnum mjög verulega.

Innræting

Ríki eins og Ísrael byggist á innrætingu, sem til dæmis innfelur þá trú að Palestínumenn séu hættulegir − og að Ísrael hafi rétt til að verja sig. Afleiðing þessarar innrætingar er að mikill fjöldi Palestínumanna eru drepnir við margvísleg tækifæri. Þá er ekki ólíklegt að í uppeldinu, eða að minnsta kosti í hernum, sé ungu fólki í Ísrael kennt að fréttamenn séu til ills eins, og þess vegna „fyrir“. Fjöldi fréttamanna sem lætur lífið á þessu svæði er mikill. Síðan 7. október hafa 94 fréttamenn verið drepnir.[9] Flestir eru Palestínumenn. Árin 2000 til 2022 drap ísraelski herinn 55 fréttamenn.

Aftur að innrætingu. Ísraelsku hermennirnir þrír sem höfðu verið gíslar og veifuðu hvítu flaggi til að sýna að þeir væru hættulausir – þeir litu út ekki ósvipað Palestínumönnum − og voru skotnir. Slys? Öllu heldur ósjálfráð viðbrögð vegna innrætingar: Skjóta þá !

Aðeins um 7. október

Tilgangur árásar Hamas var að vekja viðbrögð.

Þegar þeir ruddust inn í þorpið úðuðu hermenn xxx húsin með vélbyssuskothríð og drápu marga íbúa. Þorpsbúum sem eftir voru var safnað saman á ákveðinn stað og myrtir með köldu blóði. Síðan voru lík þeirra vanvirt. Á meðan var nokkrum kvennanna nauðgað og síðan myrtar.

Drengur að nafni Zaydan varð fyrir skoti þar sem stóð í röð með börnunum í þorpinu við vegg og xxx hermenn létu skotum rigna yfir þau „að gamni sínu“ áður en þeir yfirgáfu þorpið. Hann var heppinn að lifa af.

Þessi frásögn gæti virst vera um tíðindin 7. október 2023, og þar sem stendur xxx í textanum mætti halda að átt sé við Hamas.

Nei, þetta er frásögn frá 9. apríl 1948, og xxx stendur fyrir hersveitir síonista. Staðurinn er þorp sem hét Deir Yassin. Þeir sem hermennirnir drápu voru Palestínumenn og tilgangurinn var að búa til ríkið Ísrael með því að drepa eins marga og þurfti til að fá aðra íbúa til að bjarga lífi sínu á flótta án þess að taka nokkuð með sér. Hersveitirnar lögðu síðan þorpin í rúst og af síonistar kannast ekki við að þarna hafi verið byggð. Skipuleggjandinn var Íslandsvinurinn David Ben-Gurion, seinna fyrsti forsætisráðherra Ísraels. Textinn er þýddur úr bók ísraelska sagnfræðingsins Ilans Pappés, sem á ensku heitir The Ethnic Cleansing of Palestine eða Kynþáttahreinsunin í Palestínu.

Í bókinni Íslandsstræti í Jerúsalem eftir Hjálmtý Heiðdal frá 2019 er sagt frá samsvarandi glæpum forvera núverandi Ísraelshers, IDF, í þorpinu Al Dawayima í október 1948 − eftir stofnun Ísraelsríkis. Þar er haft eftir sjónarvottum að „þrátt fyrir að ekki hafi verið nein mótspyrna að hálfu þorpsbúa hafi hermenn Haganah [hers síonista] barið ungbörn til dauða með lurkum, nauðgað konum og smalað fólki inn í hús sem síðan voru sprengd í loft upp.“

Rétt er að hafa þessa forsögu í huga þegar atburðir haustsins eru skoðaðir. Ekkert afsakar hryðjuverk Hamasliða 7. október ‒ en okkur er skylt að skilja hvernig á þeim stendur.

Hryðjuverkin 7. október voru hryllileg. En það var ekki nóg. Upp komu fréttir um alls konar skepnuskap Hamasliða, ótrúlegt athæfi ‒ enda voru sumar þessara frásagna uppspuni, bæði þeirra einstaklinga sem ætluðu að hagnast á „fréttunum“, eins og Morgunblaðið segir frá 2. október „Skáldaði upp fjölda hryllingssagna af innrás Hamas“, og ásakanir æðstu manna ríkisins, sem jafnvel Bandaríkjaforseti endurtók. Þessi fréttaflutningur fyrstu dagana eftir 7. október var undirbúningur fyrir djöfulsskap síonista á Gasa, sem enn stendur yfir.

Í fréttum um 7. október var slegið úr og í varðandi nauðganir. Nauðgun er svívirðilegur glæpur – einnig samkvæmt hefðum íslams − og nokkuð merkilegt að menn gefi sér tíma til slíkra verka þegar til stendur að taka gísla og koma sér í skjól áður en Ísraelsher birtist.

Hernámið hefur skapað alls kyns aðstæður sem hinir undirokuðu, Palestínumenn, karlar og konur, verða að aðlagast til að lifa af. Þarna hafa skapast tækifæri fyrir eftirlitsmenn síonista til að lítillækka konur og beita þær kynferðislegu ofbeldi. Um það eru mörg dæmi.[10] Arabískar konur hylja vandlega nekt sína, en dæmi eru um að þær hafi verið leiddar naktar fram fyrir börn undir stjórn síonískra her- og lögreglumanna. Konur sem fá leyfi til að heimsækja eiginmenn sína í fangelsi þurfa að ganga í gegnum líkamsskoðun, að minnsta kosti þukl. Það liggur í hlutarins eðli að það er sjaldgæft að slíkir glæpir séu kærðir. Á kannski einhver þeirra sem brutust út úr Gasa 7. október móður eða systur eða ömmu sem varð fyrir slíku ofbeldi?

Þetta eru ljót tíðindi, en þau voru ekki í kastljósi fjölmiðla þegar glæpirnir voru framdir. Seinna verður sagt frá morðum á unglingum til að hrekja íbúa þorpa frá heimilum sínum fyrir stofnun Ísraelsríkis.

 

Sagan

Það ríki sem nú heitir Ísrael varð til með ofbeldi stjórnmálahreyfingar sem kenndi sig við trúarbrögð, gyðingdóm, gagnvart Palestínumönnum sem hafa búið í Palestínu samfellt lengur en Ísland hefur verið byggt. Valdataka síonista fór að miklum hluta fram með hryðjuverkum. Vopnaðar sveitir – sem meðal annarra voru skipaðar ýmsum þeim sem síðar urðu forsætisráðherrar Ísraels ‒ drápu tugi þúsunda saklausra borgara til að koma ríkinu á fót.

Lítum fyrst á söguna

Palestína var lengst af hluti af Ottómanaveldinu í Tyrklandi. Ottómanar réðust á Kaíró árið 1516 og náðu völdum af Mamlúkum, sem frá 1250 höfðu ríkt yfir Egyptalandi, Sýrlandi og Arabíu, þar með talið Palestínu. Ríktu Ottómanar á einn eða annan hátt á þessu víðlenda svæði til loka fyrri heimsstyrjaldar, þegar Tyrkir börðust með miðveldunum gegn bandamönnum.

Þegar hillti undir lok styrjaldarinnar fóru væntanlegir sigurvegarar, Bretar, Frakkar og Rússar, að undirbúa skiptingu valda- og áhrifasvæða eftir lok Ottómanaveldisins.

Aröbum lofað sjálfstæði

Henry McMahon landstjóri Breta í Egyptalandi hafði heitið Hashemítum, höfðingjaætt sem hafði náð stöðu sem forystumenn araba, þar með talið Palestínumanna, að svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs yrði undir stjórn Araba[11] ef bandamönnum tækist með hjálp araba tækist að koma Ottómönum þar frá völdum. Svæðið var þá kallað Stór-Sýrland og náði yfir núverandi Palestínu/Ísrael, Líbanon, Sýrland og hluta Íraks. Af Hashemítaætt er meðal annars Abdúlla núverandi Jórdaníukóngur.

Utanríkisráðherra Breta, Arthur Balfour, gaf síðan út yfirlýsingu 2. nóvember 1917, þar sem segir í lauslegri þýðingu:

Ríkisstjórn hans hátignar er hlynnt því að þjóðarheimili gyðinga verði í Palestínu, og vill gera sitt besta til að því verði komið í framkvæmd, enda sé það skýrt að ekkert megi gera sem gæti skaðað borgaraleg og trúarleg réttindi samfélaga fólks af öðrum trúarbrögðum sem búa þar núna,[12] né réttindi og stjórnmálaleg áhrif gyðinga í öllum öðrum löndum.

Yfirlýsingin var gefin út í nóvember síðasta heila stríðsárið, rúmu hálfu ári eftir að Bandaríkin hófu þátttöku í stríðinu og ljóst var að miðveldin mundu bíða ósigur. Hún er eins konar borgun fyrir stuðning gyðinga, sérstaklega í Bandaríkjunum, við að fá Bandaríkjastjórn til að taka þátt í styrjöldinni. Hún hefur verið afar umdeild. Um hana sagði hinn kunni fræðimaður Edward Said: „Yfirlýsing gefin út af evrópsku veldi … um svæði utan Evrópu … af fullkominni lítilsvirðingu fyrir tilvist og vilja meirihluta þeirra sem þá byggðu landið.“[13]

Engar heimildir eru um að Palestínumenn hafi verið hafðir með í ráðum við þessa yfirlýsingu, og fátt bendir raunar til þess að bresk yfirvöld hafi – þrátt fyrir orðin sem hér eru feitletruð − beitt sér til að tryggja hagsmuni íbúa Palestínu gagnvart þeim sem fluttust á vegum síonista til landsins fyrr og einkum síðar, ef til vill að undanskilinni hvítbókar-ákvörðun bresku stjórnarinnar 1939, rétt fyrir seinna stríð, sem síðar verður fjallað um.

Árið 1882 voru gyðingar 3% íbúa Palestínu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að um margra alda skeið hafði óvild í garð gyðinga í Evrópu, ekki síst í Rússlandi, brotist út öðru hverju í grimmdarlegum ofsóknum. Árið 1882 flúðu margir gyðingar ofsóknir í Rússlandi og nokkur hluti þeirra, 20–30 þúsund manns, settist að í Palestínu.

Árið 1896 kom út í Vínarborg bókin eða bæklingurinn Gyðingaríkið[14] eftir blaðamanninn Theodor Herzl. Þar segir að gyðingar þurfi að eignast eigið ríki, þar sem þeir ráði landamærum og hafi landið fyrir sig. Það land sé Palestína. Ritið vakti þegar athygli og er talið grundvallarrit síonista. Í seinni skrifum Herzls um fyrirheitna landið viðurkennir hann að landið sé byggt, en gerir lítið úr þeim íbúum − aröbum, og segir að hægt verði að koma þeim yfir landamærin til nágrannalandanna til þess að þeir verði ekki fyrir í landi gyðinga.[15]

Það er lítill vafi á að vilji ráðamanna Ísraels árið 2024 er mjög í takt við skoðanir Theodors Herzls fyrir 125 árum. Aðgerðir þeirra síðan 7. október sýna það, og raunar er atburðarásin undanfarin 105 ár, eða frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, mjög í anda þessa helsta hugmyndafræðings síonismans.

Við lok fyrri heimsstyrjaldar virtust Frakkar og Bretar ekki geta náð samkomulagi um framtíðarhagsmuni sína og íbúa þeirra landa sem áður tilheyrðu Ottómönum. Þá blandaði forseti Bandaríkjanna, Woodrow Wilson, sér í málið og sendi sína bestu menn, King og Crane, til svæðisins við botn Miðjarðarhafsins til að kynna sér vilja heimamanna.[16]

Áður hafði Feysal prins af Hashemítaætt kallað til ráðgjafarþings íbúa Stór-Sýrlands í Damaskus. Þingið lagði fram tillögur sem meðal annars gengu gegn Balfour-yfirlýsingunni.

Fulltrúar Bandaríkjaforseta voru sex vikur á svæðinu, hittu eins marga og þeir gátu og færðu fundina til bókar. Þar segir að þeir hafi rætt við fulltrúa 442 hópa hvaðanæva af svæðinu. Þeir söfnuðu 1.863 tillögum með undirskrift 91 þúsund manna, fulltrúa  þriggja milljóna íbúa.

Í lok dvalarinnar funduðu sendimennirnir með Feysal og hans mönnum og báru saman bækur. Niðurstaðan var sú að í langflestum atriðum var samhljómur milli fulltrúa Bandaríkjaforseta og heimamanna í Stór-Sýrlandi. Þeir töldu að í Balfour-yfirlýsingunni fælist mótsögn sem gerði hana, óbreytta, óframkvæmanlega. 92% íbúa sem af öðrum uppruna en gyðinglegum vildu ekki fá síonista á sitt land og í 72% tillagnanna sem sendimönnunum bárust var lagst eindregið gegn landtöku síonista.

Frakkar höfðu hins vegar strax 1916 gert leynilegan samning við Breta um að Sýrland og Líbanon (um það bil eins og við þekkjum löndin nú) yrðu franskt áhrifasvæði gegn því að Bretar fengju Palestínu, Jórdaníu og stóran hluta Íraks.[17] Réðust Frakkar inn í landið með her sem samanstóð að mestu af hermönnum frá nýlendum þeirra. Yfirráð Frakka þar stóðu allt til loka seinni heimsstyrjaldarinnar.

Þetta var á allan hátt mikið áfall fyrir araba. Trú þeirra á að Bandaríkjaforseti − sem hafði boðað sjálfstæði þjóðríkja ‒ gæti komið réttlæti til leiðar fór veg allrar veraldar og hefur varla verið endurvakið nú, eftir rúma öld.

Landakaup

Auður gyðinga erlendis var notaður til að kaupa upp land í Palestínu, og leiddu þau landakaup árið 1929 til átaka milli síonista og Palestínumanna. Þeir Chaim Weizmann, einn af leiðtogum síonista, og auðmaðurinn Edmond barón af Rothschild settu á fyrsta áratug aldarinnar upp fyrirtæki til að kaupa land af palestínskum landeigendum, sem flestir tilheyrðu efnaðri yfirstétt sem bjó meira og minna í Líbanon eða Egyptalandi. Þegar þessi kaup voru um garð gengin voru 60 þúsund Palestínuarabar hraktir af landi sem þeir höfðu búið á, og þar með skapað pláss fyrir gyðinga frá Austur-Evrópu og Jemen. Auðmennirnir unnu ötullega á öllum sviðum að því að koma á heimalandi gyðinga, með þessum kaupum, með því að hafa áhrif á almenningsálitið og beita valdamenn þrýstingi. Peningar tala.

Árið 1930 komu upp alvarlegar efasemdir í Bretlandi um flutninga gyðinga til Palestínu. Gefin var út hvítbók sem studdi málstað hinna upprunalegu íbúa Palestínu,[18] en peningar alþjóðlegra samtaka gyðinga voru notaðir til að fá minnihlutastjórn Ramsays MacDonalds til að virða þessar skýrslur að vettugi. MacDonald gaf 13. febrúar 1931 út yfirlýsingu, sem sögð er skrifuð af forystumanni síonista. Þar sagði að engin takmörk yrðu sett á flutninga gyðinga til Palestínu eða landakaup þar. Bresk stjórnvöld lögðust gegn því að koma á stjórn Palestínumanna á eigin landi, og brugðust með því hlutverki sínu að vernda rétt þeirra sem byggðu landið þegar Bretar tóku við af Ottómönum.

Flutningar gyðinga héldu áfram í stríðum straumum. Árið 1935 komu 62 þúsund gyðingar til landsins, og voru þeir þá orðnir 27% mannfjölda í Palestínu. Palestínskur almenningur í Palestínu var orðinn þreyttur á aðgerðaleysi heldri borgara í landinu, sem voru að mestu auðugir landeigendur, við að verja hagsmuni innfæddra. Og því var eftir gripið til verkfalla, skemmdarverka og skæruhernaðar frá 1936‒1939.

Kynþáttahreinsun lögð til

Bretar skipuðu nefnd til að kanna ástandið.[19] Niðurstaðan sem var birt 7. júlí 1937 var sláandi: Átökin í Palestínu spruttu af tveimur andstæðum málstöðum, innfæddra, sem voru þá um ein milljón, og 400 þúsund innflytjenda á vegum síonista, og vildu hvorir um sig búa í landinu á sínum forsendum. Ekkert hafði verið gert til að framfylgja skilyrðum Balfour-yfirlýsingarinnar um virðingu fyrir lífsháttum heimamanna. Í niðurstöðum Peel-nefndarinnar svokölluðu var í fyrsta sinn talað um að skipta landinu. Tillaga nefndarinnar var sú að síonistar fengju 20% landsins, það sem best var fallið til ræktunar og framfærslu, en Palestínumenn 80% landsins, svæði sem voru allajafna verr nýtanleg. Lagt var til að Gasaströndin félli í hlut Palestínumanna. Talað var um selflutning Palestínumanna frá heimkynnum sínum til hinna úthlutuðu svæða. Í síðari tíma málnotkun eru slíkar aðgerðir kallaðar kynþáttahreinsun – ethnic cleansing á ensku. Hér var í fyrsta sinni talað af hálfu breskra stjórnvalda um land sem gyðingar réðu einir.

Þetta leiddi til blóðugra átaka milli Palestínumanna og Breta, sem brugðust við með svipuðu valdi og nú sést í átökunum á Gasa þótt vopnabúnaður sé annar. Bretar fluttu til landsins fjölmennari lögreglu og herlið en sést hafði frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Hús voru lögð í rúst, fjölskyldur fluttar í einangrunarbúðir. Í árslok 1939 dvöldust meira en 9 þúsund Palestínumenn í slíkum búðum í sínu eigin heimaland og voru þá 10% fullorðinna palestínskra karla í fangelsi, í útlegð, meiddir eða drepnir í átökunum. Grunaðir andspyrnumenn voru yfirheyrðir með mikilli hörku. Þegar þarna kom, höfðu Bretar, sem frá upphafi höfðu lítið gert til að vernda hagsmuni Palestínumanna samkvæmt Balfour-yfirlýsingunni, snúið fullkomlega við blaðinu og komnir á fullt við að vernda hagsmuni síonista.

Ný hvítbók: Blandað þjóðfélag með hámarkshlutfalli gyðinga

Þegar Bretar voru komnir í stríð við Þýskaland nasismans haustið 1939 gátu þeir ekki lengur haft þúsundir manna undir vopnum fjarri vettvangi átakanna við að gæta hagsmuna innflytjenda og enn ein nefndin var sett á laggirnar um ástandið í Palestínu. Hún gaf út Hvítbókina 1939.[20] Nefndin mælti með að hætt yrði við uppskiptingu lands og ákveðið að leyfður hámarksfjöldi gyðinga sem hlutfall landsmanna yrði 35% og en Palestínumanna 65%. Næstu fimm árum yrði 15 þúsund gyðingum leyft að koma árlega. Ætlunin var að gyðingar hefðu mikil áhrif en yrðu aldrei í meirihluta eða ráðandi aðili á svæðinu. Kaup gyðinga á landi yrðu bönnuð með nokkrum undantekningum. Palestína fengi sjálfstæði eftir tíu ár með sameiginlegri stjórn Palestínuaraba og síonista þar sem gætt yrði hagsmuna beggja.

Þessum tillögum höfnuðu báðir aðilar. Palestínumenn sættu sig ekki við að innflutningur héldi áfram. Síonistar sættu sig ekki við takmörkun á innflutningi síns fólks enda stefndi. Hitler að yfirráðum í Evrópu og leit á gyðinga sem óæðri kynstofn sem þyrfti að losna við.

Síonistar börðust gegn ákvörðun 1939-nefndarinnar. Meirihluti þeirra studdi þó Breta, ekki síst leiðtoginn Ben-Gurion, en harðlínumenn í þeirra hópi lýstu yfir stríði gegn Bretum og stefndu með skæruhernaði og hryðjuverkum að því að hrekja breskan her og lögreglu úr landi, einkum hryðjuverkasamtökin Irgun og Lehi, sem oftast er talað um sem Stern-gengið.[21] Í júní 1940 varð hlé á átökunum vegna heimsstyrjaldarinnar, en hluti Lehísveitanna hélt áfram enda töldu þeir Breta ekkert erindi eiga á land sem gyðingar ættu heilagan rétt til. Þessi hópur nálgaðist raunar nasista til að efna til samstöðu gegn Bretum. Það sem hékk á spýtunni var tilboð til Þjóðverja um að senda alla Gyðinga til Palestínu en Hitler og hans menn höfðu ekki áhuga á þeirri lausn þegar til kom.[22] Foringi Lehísveitanna, Avraham Stern, var drepinn í átökum við Breta í febrúar 1942 og komst þá á eins konar friður til 1944.

Hluti af afrekaskrá Irgun-hryðjuverkasamtakanna eina viku í júlí 1938. 68 Palestínuarabar drepnir.
Skjáskot Al Jezera NAKBA

Sagnfræðingar sem fjallað hafa um málið telja að Palestínumenn hafi tapað þessari baráttu um land sitt 1936‒1939 aðallega vegna ofbeldis breska hersins sem meira og minna gekk erinda síonista.

Irgun-hryðjuverkasamtökin fengu á tímabilinu 1943−44 nýjan leiðtoga, Pólverjann Menachem Begin, sem seinna varð forsætisráðherra Ísraels. Árið 1944 hófu hryðjuverkamennirnir aftur árásir á Breta, og drápu meðal annars æðsta embættismann Breta í þessum heimshluta, Lord Moyne, í Kaíró í nóvember. Lord Moyne tók alvarlega hlutverk sitt, að framfylgja samþykktum Hvítbókarinnar 1939 um að takmarka fjölda innfluttra gyðinga, og galt fyrir það með lífi sínu.

Síonistar reiða sig á Bandaríkjamenn

Um 600 leiðtogar síonista héldu þriggja daga fund á Biltmore-hótelinu í New York í maí 1942. Þar var tekin harðari stefna um landtöku í Palestínu: Að Palestína yrði ríki gyðinga.[23] Ben-Gurion lýsti því yfir að fyrsta og helsta takmarkið væri að koma upp byggð tveggja milljóna gyðinga í viðbót við þá hálfu milljón sem þegar var í Palestínu. Þetta var í algerri andstöðu við anda og innihald Hvítbókarinnar. Á fundinum voru ýmis viðhorf á lofti, meðal annars um friðsama sambúð við Palestínuaraba, en harðlínuafstaða Ben-Gurions varð ofan á.

Frá og með þessum fundi litu síonistar á Bandaríkin sem helsta bandamann sinni. Sýnt var að breska heimsveldið yrði ekki svipur hjá sjón að stríðinu loknu, en Bandaríkin á hinn bóginn mesta stórveldi heims.

Frá upphafi landtöku síonista samkvæmt Balfour-yfirlýsingunni, um 1920, höfðu þeir sameinast um einskonar varnarher til að verja hagsmuni sína, Haganah („Vörnin“). Þessi her var lengst af talinn ábyrgasta afl síonista í baráttunni. Eins og áður segir mynduðust til hliðar við hann samtök sem stunduðu hryðjuverkaárásir og mannrán eða aftökur. Eftir seinni heimsstyrjöld sameinuðust Haganah á hinn bóginn Lehí-sveitunum og Irgun í bankaránum, árásum á mannvirki og við að taka liðsmenn Breta í gíslingu. Eftir ríkisstofnun var síðan myndaður núverandi Ísraelsher úr þessum sveitum. Borgaraleg samtök síonista voru kölluð Gyðingaumboðið, á ensku The Jewish Agency, sem laut í stríðslok forystu Ben-Gurions. Þar héldu menn því fram að það væri ekkert samráð milli borgaralegras forystu þeirra annars vegar og Haganah og hryðjuverkasamtakanna hins vegar. Opinberlega töldust Haganah-sveitirnar ekki fremja hryðjuverk.

Þar sem bæði Bretar og Bandaríkjamenn lokuðu löndum sínum fyrir eftirlifendum helfararinnar varð Palestína helsti valkostur þeirra. Ef þessi ríki hefðu sýnt þá gestrisni sem eðlilegt hefði verið eftir ósköpin sem urðu örlög gyðinga í Þýskalandi og á hernámssvæðum nasista, þá hefði spennan væntanlega verið mun minni í Palestínu. Líklega hefði það hins vegar litlu breytt um staðfestu alþjóðasamtaka síonista um heimaland fyrir gyðinga.

Bretar vinna vinnuna sína og gjalda fyrir

Bresk stjórnvöld töldu í lok júní 1946 að trúnaður væri brostinn milli þeirra og síonista, og handtóku Bretar þá um 2.700 manns. Hluti þeirra aðgerða var húsleit í skrifstofum Gyðingaumboðsins 29. júní 1946. Í þeim aðgerðum tóku þeir skjöl sem innihéldu upplýsingar um fjölmörg hryðjuverk og þá sem þau höfðu framið. Aðalaðsetur yfirstjórnar Breta var í einni álmu King David-hótelsins í Jerúsalem og þangað var farið með skjölin viðkvæmu.[24]

Hryðjuverkasamtökin Irgun voru fengin til að koma í veg fyrir frekari skaða. Eftir þriggja vikna undirbúning var þessi álma hótelsins sprengd í loft upp, 22. júlí 1946. 91 var drepinn í árásinni og meira en hundrað slösuðust, Bretar, arabar og gyðingar. Þessi aðgerð telst til hryðjuverka og sá sem hafði umsjón með aðgerðinni, Menachem Begin, var hryðjuverkamaður, sem á árinu 2023 væri sennilega talinn á plani með Hamas í skipulagshæfileikum.

Irgun-samtökin lögðu sérstaka stund á gíslatöku. Þegar bresk stjórnvöld dæmdu hryðjuverkamenn Irguns til dauða, svo sem fyrir að sprengja lögreglustöðvar í loft upp, voru breskir lögreglu- eða hermenn teknir í gíslingu og hótað lífláti. Bretar höfðu dæmt þrjá hryðjuverkamenn til dauða í júlí 1947. Irgun tók þá tvo breska liðþjálfa sem gísla til að koma í veg fyrir aftöku félaga sinna. Þetta er athyglisvert í ljósi samtímaviðburða á svæðinu. Í sögu átakanna í Palestínu/Ísrael er gíslataka alls ekki einskorðuð við Hamas, og fjölmargir þættir árásarinnar 7. október 2023 líkjast verkum síonista um miðja síðustu öld. Hryðjuverkamennirnir voru hengdir og því svaraði Irgun með að hengja gíslana, og koma fyrir sprengjugildrum (e. booby traps) sem sprungu þegar líkin voru skorin niður. Þetta gíslamál vakti mikla andúð á gyðingum í Bretlandi. Hæst bar andúðina í Liverpool þar sem um 300 fyrirtæki í eigu gyðinga urðu fyrir árásum. Þá − tveimur árum eftir að Helförinni lauk − var farið að setja upp skilti í Bretlandi; „Hang All Jews“ og „Hitler Was Right“. Þetta kom á óvart því breskir gyðingar höfðu ágæta sambúð við aðra breska þegna, og saga þeirra á 19. og 20. öld var raunar miklu friðsælli þar í landi en gyðinga í flestum öðrum Evrópulöndum.

Churchill vill að gyðingar í Palestínu fái herþjálfun

Churchill forsætisráðherra Breta fyrirskipaði að sett yrði á stofn herdeild skipuð gyðingum í Palestínu, til að þjálfa þá í hermennsku. Margir arabar voru sjálfboðaliðar í liði Breta í seinni heimsstyrjöldinni en þeim var dreift á margar herdeildir. Þessir hermenn lutu stjórn breskra liðsforingja og voru því ekki þjálfaðir í einu eða neinu í Palestínu sérstaklega. Margir þeirra sem tóku þátt í aðgerðum síonista höfðu verið í breska hernum og höfðu alla þá þekkingu sem fylgir hernaði, á tækjum, samskiptum og aga. Þá voru í breska hernum gyðingar sem ekki höfðu flust til Palestínu, en voru síonistum á allan hátt hjálplegir, svo sem með upplýsingar um ætlanir yfirvalda. Einn slíkur var Abba Eban, seinna sendiherra Ísraels hjá SÞ og utanríkisráðherra, sem rétt fyrir árásina á King David-hótelið lak upplýsingum til fjölmiðla sem komu sér illa fyrir yfirmann Breta á svæðinu.

Á meðan héldu síonistar áfram að efla herstyrk sinn með vopnum og þjálfun og voru í ársbyrjun 1948 um 40 þúsund manns í sveitum þeirra.

NAKBA − Hörmungin

Frá ársbyrjun 1947 vann hópur síonista að skipulagi þjóðernishreinsunar á vikulegum fundum.

Upplýsingar um þorp Palestínumanna, um helstu leiðtoga þeirra og viðhorf, um atvinnuhætti og frjósemi jarðvegs og um leiðir að og frá hverju þorpi höfðu verið skráðar skipulega mörg ár þar á undan, sem liður í hernaðarundirbúningi. Þarna voru menn að vanda sig. Þessi undirbúningur var kallaður Plan Dalet.[25]

Ísraelski sagnfræðingurinn Ilan Pappé heldur því fram að allar slíkar áætlanir hafi verið gerðar með vitneskju og samþykki Ben-Gurions.[26]

Hinn 15. febrúar 1948 réðust hópar síonista skipulega á fimm þorp Palestínuaraba og ráku íbúana á flótta. Foringi eins hópsins er talinn hafa verið Yitzhak Rabin, síðar forsætisráðherra Ísraels. Þessi hernaðaraðgerð er skýrt hryðjuverk. Þetta var eins konar generalprufa fyrir þjóðernishreinsun, og tókst vel. Bretar aðhöfðust ekkert til að koma í veg fyrir árásirnar.

Nokkrum vikum síðar, 10. mars, hittist Plan Dalet-hópurinn í síðasta sinn, fór yfir árangurinn af árásum á þessi fimm þorp og samþykkti áætlun um mun öflugri þjóðernishreinsun. David Ben-Gurion skrifaði í dagbók sína: „Í hverri árás þurfa áhrifin að vera afgerandi, með eyðileggingu heimila og brottrekstri íbúanna.“[27]

David Ben-Gurion Skjáskot Al Jezeera: Al-Nakba 3

Í annars konar hryðjuverki var sprengd upp bygging sem áður hýsti stjórnstöð Ottómana í hafnarborginni Jaffa, og fórust þar 26 manns. Sprengja drap 20 manns í Semiramis-hótelinu í Jerúsalem. Ben-Gurion neitaði ekki þátttöku sinna manna í hryðjuverkunum..

Að morgni 9. apríl 1948 varð Deir Yassin, þorp nálægt Jerúsalem, 144 hús, þar sem foringjar höfðu áður samið um frið við síonista, fyrir árás hryðjuverkasveitanna Irguns og Lehís. Árásin leiddi til dauða 107 þorpsbúa og 5 árásarmanna. Þorpið var í 4 kílómetra fjarlægð frá höfuðstöðvum breska lögreglustjórans í Jerúsalem. Þegar hann frétti af hryðjuverkunum sagði hann að þessir atburðir kæmu honum ekkert við.

Fréttin um árásina olli hryllingi hjá Palestínuaröbum og flúðu þeir heimili sín í unnvörpum. Nú var enginn óhultur.

Forystumenn síonista fordæmdu árásina og báðust afsökunar vegna hennar, en engu að síður var árangurinn eins og skrifaður inn í handbók þeirra um þjóðernishreinsanir. Slíkar afsökunarbeiðnir eru enn stundaðar, án þess að nokkur iðrun eða ásetningur um betri hegðun liggi að baki. Þetta fellur undir markaðssetningu.

Flúið í þorpskirkjuna og myrt

Þegar ráðist var á þorpið Al Bassa í maí 1948 var skotið á þorpið frá þremur hliðum en haft opið til norðurs til að fólkið mundi flýja til í þá átt, til Líbanon. Þeir sem gátu ekki flúið leituðu skjóls í kirkjunni, en íbúar voru flestir grísk-kaþólskir. Þá komu Haganah-menn inn í þorpið og tóku úr kirkjunni fjóra drengi og stúlkur, 14 og 15 ára, og drápu þau. Fólkið sem eftir var flúði.

Talið er að milli 8 og 15 þúsund Palestínumanna hafi fallið fyrir hendi síonista á þessum tíma og samtals 531 bæir og þorp jöfnuð við jörðu. Um 85% Palestínumanna voru rekin á brott frá bústöðum sínum. Helmingur þeirra Palestínuaraba sem urðu flóttamenn höfðu verið hraktir frá híbýlum sínum þegar í maí 1948, áður en Ísrael var stofnað sem ríki.

Síonistar feta í fótspor nasista

Nú sjötíu og fimm árum síðar er ekki laust við að svipur sé með hryðjuverkum Hamas, þar sem venjulegir borgarar eru myrtir alsaklausir á hryllilegan hátt, og aðgerðunum 1948.

Í hryðjuverkaárás Hamas á byggðir nálægt Gasa 7. október voru framdir glæpir sem allir fordæma. Tilgangur Hamas var að kalla fram viðbrögð Ísraelsstjórnar og atburði sem gætu brotið upp það þrátefli milli Palestínumanna og stjórnar Netanyahu, sem hefur leitt til þess að Palestínumenn eru að mestu réttlausir í sínu eigin landi, og meðal annars komið fyrir í stærstu fangabúðum heims á Gasa, eins og David Cameron, þá forsætisráðherra Breta, sagði í lok júlí 2010.[28] Tímasetningin var líklega til að koma í veg fyrir samninga Ísraels og arabaríkja við Persaflóa.

Rússnesk-bandaríski gyðingurinn Masha Gessen, fastur penni hjá The New Yorker, skrifaði grein í blað sitt 9. desember 2023, „Í skugga Helfararinnar“ (In the Shadow of Holocaust).[29] Þar fjallar hann um orð Camerons og bendir á að fangelsum er stjórnað af fangavörðum, sem eru bæði innan og utan fangelsanna. Masha segir að Gasa sé miklu frekar eins og þau gettó sem nasistar héldu gyðingum í, þar sem nasistarnir sáu um að enginn kæmist út og helst ekkert inn. Gyðingarnir í gettóum nasista voru, rétt eins og íbúar Gasa undanfarin ár, samfélag án frelsis, en menn reyndu að lifa sínu lífi innan gettósins.

Þessi umræða fellur ekki í kramið hjá síonistum, því þeir telja sig nánast hafa einkarétt á umræðum um Helförina og túlkun hennar. Helförin sé einstök, slíkir atburðir hafi aldrei orðið áður og ekki síðan. Masha segir aftur á móti að Þjóðverjar hafi framið sams konar þjóðarmorð á Herero- og Nama-þjóðflokkunum á árunum 1904 til 1908 í Suð Vestur-Afríku þar sem nú er Namibía. Aðferðir sem þar voru þróaðar hafi komið að notum við framkvæmd Helfararinnar. Masha telur mikil líkindi með framkomu síonista við Palestínumenn og framkomu nasista á sínum valdatíma.

Þá er það viðurkennt að Ottómanar frömdu þjóðarmorð á kristnum Armenum 1915−1916.[30]

Í áhrifamiklum fyrirlestri í Berkeley-háskóla hálfu ári fyrir andlát sitt sagði palestínsk-bandaríski fræðimaðurinn Edward Said[31] að allir viðurkenndu þær hörmungar sem gyðingar hafa þurft að búa við um aldir, en nú hafi hlutirnir snúist við. Framkoma síonista við Palestínumenn séu í flestum atriðum sú sama og þeirra sem ofsóttu gyðinga (þar með taldir nasistar).

Í Ísrael er rætt um atburðina 7. október sem mestu árás á gyðinga allt frá Helförinni. Á tímabilinu frá 2008 til september 2023 höfðu 6.407 Palestínuarabar verið drepnir. Helmingur með eldflaugum.[32] Frá 7. október 2023 til 2. febrúar 2024 voru 372 Palestínumenn drepnir á Vesturbakkanum. Þeir hættu ekki þá og enn bætist  við þessa tölu.

Hryðjuverk Hamas 7. október voru greinilega vel skipulögð og vel er líklegt að þeir hafi kynnt sér hryðjuverkin 1948, enda er takmarkið ekki ósvipað. Hamas eru trúarleg samtök sem jafnframt berjast fyrir hagsmunum Palestínumanna, og vilja veg Ísraels sem minnstan þó að í verki hafi þau viðurkennt Ísraelsríki fyrir löngu. Líkur eru á að viðbrögð ríkisstjórnar Netanyahu hafi skapað þann óhug meðal almennings um allan heim sem árásaraðilinn stefndi að. Strax næstu daga varð ljóst að ekkert yrði úr frekari nálgun Ísraels og arabísku olíuríkjanna við Persaflóa sem Bandaríkjastjórn óskaði eftir og hófst í tíð Trumps í Washington.

David Ben-Gurion les yfirlýsingu um sjálfstæði Ísraels 14. maí 1949. Á veggnum hangir mynd af hugmyndasmið Ísraelsríkis, Theodor Herzl, höfundi Gyðingaríkisins.

Eins og áður segir lagði Theodor Herzl með skrifum sínum fyrir aldamótin 1900 línurnar um framtíðarríki síonista; ekki gengi að hafa aðra borgara en Gyðinga innan landamæranna og það þyrfti að losna við ,hitt fólkið‘. Að þessu hefur verið unnið leynt og ljóst frá Nakba-atburðunum 1948, meðal annars með því að neyða hundruð þúsunda Palestínuaraba yfir landamærin til Líbanon.

Loftárásir Ísraelsmanna í rúma fimm mánuði hafa opinberlega þann tilgang að ráða niðurlögum Hamas (og frelsa gíslana!). 3 mars 2024 höfðu yfir 30 þúsund íbúar Gasa verið drepnir og yfir 68 þúsund voru alvarlega slasaðir eftir loftárásir og landhernað. Þessar tölur taka aðeins til þeirra sem hafa verið skráðir látnir eða slasaðir, en ekki til þess óþekkta fjölda sem er grafinn undir rústum. Erfitt er líta á þessa atburði úr samhengi við þann vilja Herzl og sporgöngumanna hans að losa sig við hina.

Að svelta óbreytta borgara í meira en 12 vikur, neita þeim um vatn, lyf og orku leiðir til dauða þá sem veikastir eru fyrir, veikir þrótt þeirra fullorðnu sem lifa, og hefur mjög neikvæð áhrif á vöxt barna. Þetta er skipulagður skepnuskapur, og hefur vakið verðskuldaðan viðbjóð hjá almenningi um heimsbyggðina.

Sumir síonistar sjá í þessu tækifæri. Fyrrverandi hershöfðingi í Ísrael, Giora Eiland, skrifaði greinina „Við skulum ekki láta heiminn hræða okkur“[33] í eitt helsta dagblað landsins, Yedioth Ahronoth, 19. nóvember síðastliðinn.[34] Þar segir hann að smit banvænna sjúkdóma gæti flýtt fyrir sigrinum á Gasa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn á þessum slóðum sem síonistar tengjast sýklahernaði. Í maí 1948 þegar Palestínumenn vörðust hetjulega árás síonista á borgina Acre skýrðu fulltrúar Rauða krossins frá því að taugaveiki-bakteríum hefði verið komið í neysluvatn borgarbúa. Margir íbúanna veiktust og varnarþrek dvínaði. Að lokum gáfust Acre-búar upp. Lá enginn vafi á hver hefði komið bakteríunum í vatnið – það var Haganah-herinn.[35] Reynt var að eitra vatnið á Gasaströndinni 27. maí sama ár. Tveir síonistar voru staðnir að verki og egypsk stjórnvöld, sem þá réðu Gasa, tóku hryðjuverkamennina af lífi, án mótmæla frá forystumönnum síonista.

Síðar varð kunnugt að Ben-Gurion setti á fimmta áratugnum á stofn hóp innan Haganah sem kallaður var vísindasveit, og var ætlað að undirbúa sýklahernað.

1,3 milljónir dóu úr hungri og sjúkdómum í gettóum í Helförinni

Það er vel þekkt aðferð að svelta innilokað fólk í gettóum. Um 1,3 milljónir gyðinga dóu úr hungri og sjúkdómum í gettóum sem nasistar stofnuðu til á yfirráðasvæðum sínum. Heildarfjöldi gyðinga sem drepnir voru í Helförinni var 6 milljónir.

Í fréttum Sky-sjónvarpsstöðvarinnar 10. desember 2023 var skýrt frá 449 árásum á sjúkrastofnanir á Gasa. Þá var verið var að handtaka og flytja burtu lækna og aðra starfsmenn sjúkrastofnana á Gasa. Þeir voru handteknir af því að þeir gætu verið Hamas-menn!

Í upphafi árása Ísraelshers var hvatt til þess að íbúar flyttu sig frá norðurhluta Gasasvæðisins suður að landamærunum við Egyptaland. Ástæður sem gefnar voru var yfirvofandi hernaður. Margir greinendur töldu þó að með þessum flutningum og sveltinu væri verið að neyða fólk til að sækja yfir landamærin til Egyptalands, sem yrðu síðan harðlokuð um alla framtíð.

Ó-sannar sögur

Það er eins og það sé skylda að hlusta á þann málflutning, og trúa honum, að Ísraelsher hafi gert allt sem hægt var til að koma í veg fyrir að almennir borgarar verði fyrir vopnum sínum. Meðal annars segjast herforingjarnir nota sérstakar nákvæmi-sprengjur.

Yuval Abraham er rannsóknarblaðamaður hjá veffréttastofunni +972 Magazine þar sem bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn eru í starfsliðinu.[36] Hann segir í viðtali við CNN 10. janúar að því fari fjarri að tilgangur sprenginganna sé að komast sem næst þeim skotmörkum sem hafi verið staðfest sem lögmæt. Við val á skotmörkum sé notuð gervigreind þar sem alls konar upplýsingum er safnað saman úr ólíkum áttum og beitt án nánari staðfestingar, um það til dæmis að viðkomandi íbúi húss sé í raun liðsmaður Hamas. Ef símanúmer tengist húsi og símanúmerið er á einhvern hátt talið tilheyra Hamas-liða, þá er sprengt. Ekkert til sem heitir vitlaust númer! Eina flokkunin er sú að ef nafnið á þeim sem gervigreindin hefur valið er kvenmannsnafn, þá er það tekið af lista hinna útvöldu skotmarka. Engin tilraun er gerð til að sannreyna að um sé að ræða Hamasliða virkan í hernaði, eða athugað hversu margir aðrir er líklegt að láti lífið í sprengingunni.

Raunar miðast sprengingarnar einkum við að draga úr baráttuþreki íbúa Gasa. Nýlega hefur verið viðurkennt að um helmingur sprengnanna eru án stýringar, þannig að það er sprengt hvað sem fyrir verður.

Enda verður sífellt erfiðara að trúa frásögnum og skýringum Ísraelshers þegar ljóst er að ráðist er á allar sjúkrastofnanir, ekki er leyft að sjá þeim fyrir rafmagni eða olíu, fæði og lyfjum – og byggt á sögum um að Hamas hafi helstu stjórnstöðvar sínar undir spítölunum og skólunum sem Ísraelsher sprengir í sífellu. Í grein í Heimildinni 4. janúar[37] er rakið hversu fáránlegar ásakanir um misnotkun sjúkrastofnanna er.

Í febrúar var þýskum fréttamönnum loks leyft að skoða meint göng Hamas. Fullyrt var að göngin lægju undir sjúkrahús og höfuðstöðvar flóttamannastofnunarinnar UNWRA. Ekki hefur frést neitt um hvort innangengt væri í byggingarnar eða hvort leiðin þræddi í hlykkjum undir vissar byggingar. Þjóðverjarnir fengu ekki að sýna neitt efni fyrr en það hafði verið ritskoðað. Sýndir voru þröngir gangar og svæði sem sagt var að hefði verið stjórnstöð Hamas, og afskornir kaplar sem sagðir voru liggja upp í gegnum aðstöðu UNWRA.

 Sem betur fer lifum við á tímum þegar ósannar fullyrðingar eiga sér stuttan „líftíma“.

Vopn Hamas

Ýmsum sögum fer af því hvaðan vopn Hamasliða koma og hafa margir verið nefndir sem vopnabirgjar þeirra.

Í grein í New York Times 29. janúar[38] er skýrt frá því að mest of vopnunum komi frá Ísraelsher. Í þessum átökum, sem og þeim fyrri, beitir Ísraelsher miklu magni flugskeyta, í raun meira en nokkurn tíma hefur þekkst, enda eru þau send sem stuðningur frá Bandaríkjunum og því ekki íþyngjandi fyrir efnahaginn. Talið er að minnsta kosti 10% þessara sprengja falli til jarðar án þess að springa. Hamasliðar hafa þjálfun í að endurnýta innihald sprengjanna, og sagt er að þær sprengjur sem Hamas notaði 7. október séu búnar til úr sprengjum Ísraelshers frá 2014. Síonísk innræting gengur meðal annars út frá að gera lítið úr Palestínumönnum, líka vitsmunalega. Ekki er því víst að hermennirnir hafi vit á að hreinsa sprengjurnar eftir sig.

Meint hlutverk Dar al-Shifa, stærsta sjúkrahúss Gasa

Fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, Ehud Barak, rifjaði það upp í viðtali á CNN við Christian Amanpour[39] 20. nóvember að Dar al-Shifa í Gasaborg, stærsta sjúkrahús Gasastrandarinnar, var byggt af Ísraelsmönnum þegar Gasa var undir beinni stjórn þeirra. Ekki ætti Ísraelsher því að skorta þekkingu á innviðum sjúkrahússins. Samt þurfti að sprengja það í loft upp og drepa mikinn fjölda fólks til að leita að hryðjuverkamönnum sem voru sagðir með hreyfanlegar bækistöðvar neðanjarðar víða um Gasa. Hver var tilgangurinn?

Mánuði eftir viðtalið við Ehud Barak, 21. desember, birti Washington Post[40] fréttaskýringu eftir rannsóknarblaðamenn sem höfðu farið yfir öll fáanleg gögn um árásirnar á sjúkrahúsið og fengið vitnisburð sérfræðinga um hernaðaraðstæður og annað sem taka þarf tillit til. Blaðamenn Washington Post draga stórlega í efa fullyrðingar Ísraelshers um að Hamas hafi notað spítalasvæðið eða svæði undir spítalanum á þann hátt að það réttlæti ofbeldið sem leiddi til dauða mikils fjölda manns og sérstaklega barna. Bent var á að ekki hafi verið sýnt fram á að það væri beinn aðgangur úr byggingum spítalans í meint samliggjandi göng, og að ekkert benti til að Hamas hafi notað þau göng sem þarna eru vissulega til hernaðar.

New York Times birtir 2. og 3. janúar greinar með frásögnum aðila um að spítalasvæðið hafi samt verið notað í hernaðarskyni, en þar var ekki sýnt fram á að innangengt væri frá spítalanum í göng Hamas. NYT hefur verið ásakað um að geta ekki staðist að birta á stundum lítt ritskoðaðar „fréttir“ síonista.

Bretar út ‒ málefnum Palestínu vísað til Sameinuðu þjóðanna

Bretar voru í sárum eftir seinni heimsstyrjöld og höfðu hvorki mannskap né þrek til að ráð fram úr vandanum í Palestínu. Breska stjórnin – sem nú var Verkamannaflokksstjórn eftir kosningaósigur Churchills 1945 − leitaði í lok febrúar 1947 til Sameinuðu þjóðanna um að taka af skarið og setja fram tillögur um framtíðarfyrirkomulag í Palestínu.

Skipuð var sérstök nefnd fulltrúa ríkja sem ekki höfðu beinna hagsmuni að gæta í málefnum svæðisins, kölluð UNSCOP (e. United Nations Special Comiteee on Palestine). Nefndin hélt til Palestínu, en fulltrúar araba neituðu að funda með nefndarmönnum og sögðu að um ekkert væri að semja. Þetta væri þeirra land. Síonistar höfðu á hinn bóginn undirbúið góða kynningu fyrir nefndarmenn, sem ekki voru sérlega vel að sér um málefni svæðisins. Meðan á starfi nefndarinnar stóð var stöðugur straumur gyðinga til Palestínu, einkum eftirlifenda úr Helförinni.

Að lokum ákvað breska stjórnin einhliða í lok september 1947 að yfirgefa Palestínu, og skyldi brottför lokið 15. maí 1948. Sú skoðun er algeng að hryðjuverk síonista, þar með talið dráp breskra liðþjálfa, hafi haft áhrif á ákvörðunina um brottför. Hryðjuverkamenn síonista í Palestínu hafi með þessum hætti náð þeim markmiðum sem sóst var eftir, yfirráðum á miklum hluta lands Palestínumanna.

Þegar Bretar byrjuðu flutning herliðs síns frá Palestínu tóku síonistar yfir aðstöðu sem breski herinn hafði komið sér upp. Þótt samskipti breskra yfirvalda og síonista væru á þeim tíma oft skapleg, og jafnvel góð, þótti síonistum Bretarnir koma í veg fyrir að þeir gætu farið sínu fram. Stefnan var sett á að losna við Breta. Síðustu átta ár stjórnar Breta í Palestínu urðu þeir fyrir um 500 árásum frá hópum síonista.

Á árunum 1936 til 1939 voru um 5.000 arabar drepnir í átökum og 108 teknir af lífi. 500 síonistar voru drepnir. Drepnir breskir hermenn og lögreglumenn voru 262. Þarna er hlutfallið um það bil tíu Palestínulíf fyrir einn síonista.

Frá 1917 til 1948 tífaldaðist fjöldi síonista.

Sameinuðu þjóðirnar 1947

Tillögur UNSCOP-nefndarinnar voru lagðar fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í nóvember 1947. Lagt var til að Palestínu yrði deilt upp í sex svæði og skipt milli fylkinganna tveggja í tveimur ríkjum, en Jerúsalem lyti stjórn alþjóðasamfélagsins. Fengur síonista var 55% landsins, þar af mörg frjósömustu svæðin.

Þegar hér er komið sögu eru íbúar Palestínu 1,8 milljónir, gyðingar þriðjungur og arabar tveir þriðju. Palestínumenn áttu þá 94% lands og 80% af ræktanlegu landi.

Þessi tillaga og afdrif hennar sýna áhrifamátt síonista gagnvart áhrifamönnum og stjórnvöldum í þeim ríkjum sem réðu stefnunni eftir stríð. Til að samþykkja tillöguna þurfti tvo þriðju hluta atkvæða, og 29. nóvember 1947 var tillagan samþykkt með 33 atkvæðum af 57 (þar á meðal atkvæði Íslands). 13 ríki voru á móti (sjö arabaríki, Grikkland, Indland, Íran, Kúba, Pakistan, Tyrkland), 10 sátu hjá og einn fulltrúi var fjarverandi. Mikið var reynt til að ná samþykki Bandaríkjamanna og beittu síonistar í Bandaríkjunum miklum þrýstingi. Truman forseti sagði að hann hefði aldrei fyrr í sinni tíð í Hvíta húsinu orðið fyrir eins miklum þrýstingi og ágangi. Áður hafði Bandaríkjastjórn tekið þá stefnu að blanda sér ekki í deilurnar, en á elleftu stundu var snúið við blaðinu og lagt að bandamönnum Washingtonstjórnar að samþykkja. Sagnfræðingar leiða líkur að því að fulltrúum sumra ríkjanna 33 hafi verið mútað. Er þá meðal annars vísað til fulltrúa Líberíu, Filippseyja og Guatemala, sem í endurminningum sínum sögðu frá þessum atburðum.

Hér er stuðst við frásögn bandaríska sagnfræðiprófessorsins Eugene Rogans, höfundar bókarinnar The Arabs. Hann telur að þótt tæplega 60% atkvæðisbærra fulltrúa hafi samþykkt tillöguna hafi mörgum þeirra ekki verið rótt við atkvæðagreiðsluna.

Samþykkt Allsherjarþingsins, sem hefur töluna 181, veitti gyðingum alþjóðlega viðurkenningu á að þeir hefðu rétt til að setjast að á landi annarrar þjóðar, Palestínumanna.

Þetta er tillagan sem Thor Thors, sendiherra Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, er hér heima sagður hafa átt mikinn þátt í að samþykkt varð. Íslendingar voru einu sinni hreyknir af þeim afrekum okkar manns, sem hefði sannarlega látið að sér og þjóð sinni kveða á alþjóðavettvangi aðeins þremur árum eftir lýðveldisstofnun. Haft er eftir Abba Eban, sem áður er nefndur, að í samtali hafi Thor „hiklaust svarað á þá leið að það væri meiri skilningur á Íslandi á örlögum Gyðinga, eins og þeim væri lýst í Biblíunni, en Eban grunaði. Þessar frásagnir væru hluti íslenskrar menningar og Gyðingar gætu treyst því að íslenska þjóðin, sem varðveitt hefði tungumál sitt og bókmenntir við erfiðustu náttúruskilyrði um aldur, hlyti að sýna skilning á viðleitni þeirra til að varðveita þjóðareinkenni sín og stofnun eigin ríkis. Hann væri sammála Eban um að nú væri komið að ákvörðun í málinu og frekari dráttur tilgangslaus.“[41] Erfitt að skilja nú af hverju Íslendingar ættu að vera hreyknir af þessari aðkomu íslenska sendiherrans. Almennt álit fræðimanna er að biblíulegar röksemdir síonista fyrir landtöku á svæðinu séu marklausar.[42]

Síðari samþykkt Allsherjarþingsins, númer 194, frá árslokum 1948, kvað á um að palestínskir flóttamenn sem vildu flytja til baka til heimalanda sinna, og lifa í sátt og samlyndi við nágranna sínu, skyldu hafa til þess rétt eins fljótt og hægt væri. Ályktanir SÞ um Ísrael hafa raunar verið meira og minna merkingarlausar, enda hafa Bandaríkjamenn – eina ríkið sem getur haft raunveruleg áhrif á stefnu Ísraelsstjórnar − ekki sýnt neinn áhuga á að koma þeim í framkvæmd. Síonistar við völd í Ísrael telja að þeir hafi rétt til að gera það sem þeir vilja gera, sem núverandi ástand sýnir.

Í bók Hjálmtýs Heiðdals, Íslandsstræti í Jerúsalem,[43] er vel fjallað um þessa atburðarás.

Í lok 1948 var fjöldi Palestínuaraba á flótta meira en 700 þúsund.

Í ályktun Öryggisráðsins númer 69 frá 1949 um aðild Ísraels að SÞ segir að ráðið hafi komist að þeirri niðurstöðu Ísrael sé friðelskandi ríki og hafi til þess getu og vilja að framfylgja skyldum sínum samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eða á ensku:

The Security Council, Having received and considered Israel’s applications for membership in the United Nations, 1. Decides that in its judgment Israel was a peace-loving state, 2. Recommends to the General Assembly that they grant membership to Israel.

Ályktunin var samþykkt með 9 atkvæðum af 11.[44] Eitt ríki á móti, Egyptaland, og eitt sat hjá, Bretland. Ríkin sem samþykktu voru Kína, sem þá var það sem nú er Taívan, Frakkland, Bandaríkin, Sovétríkin; Argentína, Kanada, Kúba, Noregur og Úkraína. Tvö þessara ríkja, Taívan og Kúba, voru á þessum tíma nánast fylgiríki Bandaríkjanna.

Fulltrúi Ísraels hjá SÞ, Abba Eban, sagði eftiur þetta að það væri engin þörf á að sækjast eftir friði. „Fyrir okkur er nóg að hafa vopnahlé. Friður mundi gefa aröbum ástæðu til að krefjast endurgjalds, svo sem breytingar á landamærum eða að flóttamenn geti snúið aftur, eða hvors tveggja.“[45]

Í þætti á Al Jazeera þar sem þessi ummæli Abba Ebans eru rifjuð upp segir ísraelski fræðimaðurinn Avi Shlaim: „Ísraelsmenn hafa alltaf verið snöggir að grípa til vopna, en merkilega tregir til að nota diplómatísk samskipti við nágranna sína.“

Ójafn leikur

Við brottför Breta voru arabar illa undir það búnir að verja sig eða berjast. Þar var engin skipuleg forysta, hvorki borgaraleg né hernaðarleg. Á hinn bóginn voru síonistar vel vopnum búnir eftir að hafa safnað vopnum í fleiri ár og þjálfað menn í hernaði. Hinn opinberi her, sem varð til úr Haganah-sveitunum, og var oftar en ekki í bardögum þar sem einhvers konar leikreglur giltu, og svo hryðjuverkasamtök unnu skítverkin og stóðu í blóðugum og hryllilegum átökum við Palestínumenn − sem létu sitt ekki eftir liggja í grimmdinni.

Eftir heimsstyrjöldina síðari fengu ríkin á svæðinu í kringum Ísrael/Palestínu sjálfstæði frá nýlenduveldunum. Þau voru fátæk og innbyrðis ósamstæð. Þau komu sér upp herjum, sem lengi framan af voru fátæklegir og illa þjálfaðir. Árið 1947 voru hópar ungra Palestínuaraba sendir til nágrannalandanna í þjálfun hjá þessum herjum. Þeir þurftu iðulega að kaupa sér rifflana sjálfir en áttu síðan varla fyrir kúlum eða púðri.

Gyðingar í Evrópu og Ameríku höfðu haldið saman í áratugi og aldir, margir gert það gott í viðskiptum og voru viðurkenndir fyrir dugnað. Þeir nutu eftir stríð samúðar og virðingar. Þangað leituðu síonistar eftir fjárhagsstuðningi.

Ófriðurinn sem fylgdi brottför Breta frá Palestínu hélt áfram, og kom þá enn betur í ljós hvað bakland Palestínumanna var veikt. Eina arabaríkið sem samþykkti tillöguna um skiptingu Palestínu var Jórdanía, sem reyndar var þá til 1949 kölluð Trans-Jórdanía (trans, lat.: yfir, gegnum; þ.e. hinumegin við ána Jordan) og þar ríkti nokkur friður undir stjórn Abdullah konungs af Hashemítaættum. Hann hafði, eins og bróðir hans, Feysal, sem fyrst var um skamman tíma konungur Sýrlands og seinna konungur Íraks, barist fyrir einu ríki araba á þessu svæði. Það gekk ekki upp, en Abdullah sá sér í umrótinu við brottför Breta færi á að sameina talsverðan hluta Palestínu og Jórdaníu. Hann náði þó ekki nema Vesturbakkanum eftir stríðsátökin 1948−49. Í stríðinu 1967 náði Ísrael líka því svæði, sem síðan er hernámssvæði að alþjóðalögum. Gasa komst undir egypsk yfirráð 1948‒49 en fór sömu leið og Vesturbakkinn eftir stríðið 1967.

Forystumenn hinna arabaríkjanna treystu Abdullah illa, og sumir sögðu að þegar hin arabaríkin tóku þátt í átökum við Ísrael 1948 hafi það alveg eins − og jafnvel frekar – verið til að koma í veg fyrir áætlanir Abdullah eins og að bæta hag Palestínumanna. Þessi ríki voru þó á engan hátt tilbúin í stríð við ríki síonista.

Sáttasemjarinn út

Sameinuðu þjóðirnar boðuðu til vopnahlés í átökunum í Palestínu og tók það gildi 11. júní 1948. Folke Bernadotte, sænskur greifi og reyndur sáttasemjari sem meðal annars hafði komið gyðingum til hjálpar í Þýskalandi nasismans, var fenginn til að tryggja frið og stýra sáttaviðræðum. Á meðan á vopnahléinu stóð reyndu Palestínumenn að verða sér úti um vopn en án árangurs. Síonistar fengu aftur á móti stóra sendingu frá Tékkóslóvakíu og juku jafnframt við herstyrk sinn, sem nú var orðinn um 60 þúsund manns. Þegar vopnahléinu lauk fjórum vikum síðar voru síonistar í mun betri stöðu en áður. Næsta vopnahlé varaði síðan frá 19. júlí til 14. október.

Bernadotte lagði fram sáttatillögu sína 16. september 1948, og skyldi ríki Palestínuaraba nú sameinast Jórdaníu. Hvorugum aðilanum líkaði tillagan, en síonistum sýnu verr. Hryðjuverkamaður úr Lehí-sveitunum myrti hinn kunna sænska diplómat 17. september. Yitzhak Shamir, verðandi forsætisráðherra Ísraels, var nú leiðtogi Lehí eftir fall Sterns. Í æviminningum sínum kvaðst hann hreykinn af þeim hryðjuverkum sem hann hafði komið að.

Átökin héldu áfram og hlutur Palestínuaraba versnaði.

Áróður – innræting

Sem áður segir virðist það hafa verið ætlun síonista frá byrjun að neita því að nokkuð væri til sem hét Palestínumenn. Slík þjóð var í þeirra munni ekki til. Vera má að forystumönnum þeirra hafi í alvöru ekki þótt tiltökumál að reka á brott – eða útrýma – þeim sem bjuggu í fyrirheitna landinu, enda væru það bara arabar eins og hinir arabarnir. Dæmi um áhrif síonista í þessu tilliti er orðalag Balfour-yfirlýsingarinnar sem talað er um samfélög „fólks af öðrum trúarbrögðum sem búa þar núna“ − en ekki minnst á Palestínumenn.

Þessi áróður barst líka til Íslands. Þegar verið var að undirbúa móttöku Davids Ben-Gurions forsætisráðherra Ísraels í september 1962 birti Lesbók Morgunblaðsins lofgrein um gestinn. „Hann trúir því að landið, sem undir tíu alda óstjórn Múhameðstrúaðra Araba varð eyðimörk, geti aftur orðið að frjósömu landi.“[46] Það skipti ekki máli að um aldamótin 1900 voru íbúar Palestínu hálf milljón. Þeir hafa varla lifað á því að éta sand.

Þarna er þess ekki getið að verulegur hluti Palestínumanna um aldir var kristinnar trúar, og að í Palestínu bjuggu kristnir, múslimar og gyðingar í þokkalegri sátt og samlyndi, og höfðu viðurværi sitt fyrst og fremst af landbúnaði. Eyðimerkur eru í landinu og hafa verið frá aldaöðli, en því fer fjarri að hið byggða land hafi verið í órækt.

Ólafur Thors sagði við komu Ben-Gurion 12. september 1962: „Með aðdáun hafa Íslendingar fylgzt með einstæðu átaki hins nýja Ísraelsríkis undir sterkri og glæsilegri forystu yðar. Íslenzku þjóðinni er vissulega mikill heiður að komu yðar.“[47]

Sterkasta vopn síonista er það hversu margir hafa trúað áróðri þeirra allt til þessa dags.

Fljótlega eftir stofnun Ísraelsríkis fékk Ben-Gurion hóp fræðimanna í landafræði til að kortleggja helgirit gyðinga, Torah eða Mósebækur Gamlatestamentisins. Hann lagði fyrir þá að afmá öll ummerki um Palestínu og koma á hebreskum örnefnum í stað palestínskra. Kort frá Ísrael endurspegla þessi fyrirmæli. Þeim var síðan mætt með því að kort sem notuð eru í arabaríkjunum sýna ekki Ísrael. Þegar flogið er nálægt Ísrael með vélum Emirates, flugfélagsins í Arabísku furstadæmunum, er ríkið hvergi að sjá á kortskjánum.

Í anda Ben-Gurion hefur lengst af verið unnið markvisst að því að afmá sem flest merki um samfélag Palestínumanna í landinu. Dæmi eru heimildir, rit, myndir og kvikmyndir sem Palestínumenn höfðu safnað til varðveislu í Beirút. Þegar Ísraelsher réðst þar inn 1982 stálu síonistar safninu – ein af mörgum einörðum tilraunum til að afmá sögu Palestínumanna.

Innsýn í nútímann

Herþjónustu ungmenna í Ísrael fylgir viss innræting í þjálfun og sá vinahópur ungt fólk myndar og fylgir því áleiðis gegnum lífið verður oft til á  herskyldualdrinum og staðfestist síðar í reglulegri endurþjálfun. Þar er eðlilegt að talað sé um sigra og vel heppnaðar aðgerðir, og síðan er óvinurinn talaður niður, sem eru nágrannarnir, Palestínumenn. Margir hermannanna hafa fellt Palestínumenn, skæruliða eða almennan borgara. Í hernum er hvorki stund, staður né ástæða til að horfa gagnrýnisaugum á eitthvað sem heimurinn utan Ísraelsríkis kallar brot á mannréttindum.

Fyrrverandi herforingi í Ísraelsher, Miko Peled, segir að viðmiðunin sé alltaf Helförin.[48] Óvinurinn á næstu grösum – hinir örsnauðu Palestínumenn − sé jafningi nasistanna. Þegar minnst er á Palestínumenn gýs upp viðbjóðurinn og hatrið: Þeir eru ekkert, þeir eru skepnur! Og það er skemmtun að djöflast á þeim hvar sem tækifæri gefst til, stöðva þá og heimta skilríki, bara til að sýna vald sitt. Þegar fyrrverandi hermenn hittast og ræða um gömlu góðu dagana er rifjað upp hvað það var gaman að djöflast í liðinu á Vesturbakkanum.

Kynþáttahatur virðist hluti af uppeldinu, og beinist ekki aðeins á Palestínumönnum heldur öllum sem eru öðruvísi.

Í þessu samhengi má minna á að þegar síonistar tala um framtíðarsamskipti við Palestínumenn er sagt að það sé ekkert vit að reyna samskipti við fólk sem kennt er í skólum að hata Ísraelsmenn og því geti engar viðræður hafist áður en þessari endurmenntun hefur verið komið á.

Ísraelskir fjölmiðlar verri en þeir rússnesku

Gideon Levy, dálkahöfundur dagblaðsins Haaretz í Ísrael,[49] segir það með eindæmum að ísraelskir fjölmiðlar séu verri en þeir rússnesku við umfjöllun um átök sem ríki þeirra eiga í. Munurinn er þó sá að Kremlverjar ráða því hvað birtist í Rússlandi, en slík boð og bönn virðast óþörf í Ísrael, svo vel virkar innrætingin. Nær ekkert er fjallað um þjáningar fólks vegna árása Ísraelshers á almenna borgara á Gasasvæðinu.

Afneitun þjóðernis − Golda Meir

Golda Meir í viðtali við Sunday Times og Washington Post í júní 1969

Í viðtali við Sunday Times og Washington Post í júní 1969 sagði Golda Meir forsætisráðherra Ísraels: „Það er ekki eins og það hafi verið Palestínubúar í Palestínu sem skilgreindu sig sem palestínska þjóð, og að við höfum komið og hent þeim út, og tekið landið frá þeim. Þeir voru ekki til.“[50] Auðvitað hefur ídentítet – samkennd eða samsömun – verið með ýmsum hætti á svæðinu um aldir, og menn geta lengi deilt um það hvenær íbúar af arabískum uppruna í Palestínu byrjuðu að líta á sig sem þjóðina Palestínumenn. Meginatriðið er að orð Goldu Meir eru hluti af stefnu síonista frá upphafi, að neita sögulegri tilveru Palestínumanna. Því að fólk án sögulegrar tilveru hefur engan rétt.

„Þjóð án lands þarf land án þjóðar.“ Þetta var frá upphafi mantra síonista, og þetta land án þjóðar var Palestína. Þessi hugsunarháttur hefur ríkt síðan, eins og vel sést í atburðunum frá hausti 2023.

Þegar Golda Meir kom til baka til Bandaríkjanna eftir stofnun Ísraelsríkis, þá framkvæmdastjóri Gyðingaumboðsins, og herir arabaríkja höfðu ráðist inn yfir landamærin „til að frelsa Palestínu“ sagði hún fjölmiðlum að herir Araba væru mun fjölmennari og betur búnir en her Ísraelsmanna ‒ sem var alrangt. Arabaríkin höfðu á þessum tíma illa búna og illa þjálfaða heri, sem hver um sig fékk fyrirmæli að heiman, án sameiginlegrar yfirstjórnar, enda voru ríkin nýorðin til eftir hernám Frakka og Breta. Að fjölda hermanna námu herir araba þriðjungi af vel búnum og vel þjálfuðum her Ísraels. Fyrir Goldu Meir skiptir það eitt hins vegar máli að vekja samúð vestra með gyðingum í Ísrael, enda réðu Bandaríkin að stríðinu loknu öllu sem þau vildu ráða um þennan heimshluta.

Annað dæmi um afneitun þjóðernis af hálfu síonista má nefna úr samningaviðræðunum í Madríd 1991, meðan Bush eldri var forseti Bandaríkjamanna, og í Ósló 1993, þegar Clinton var við völd. Þá vildu fulltrúar Ísraelsstjórnar aðeins tala við sendimenn arabaríkjanna, en ekki við forystumenn Palestínumanna − þá PLO.

Að fylla landið

Ben-Gurion hafði sett fram þá sýn á fundinum í Biltmore-hótelinu í New York í maí 1942 að skapa þyrfti í Palestínu pláss fyrir 2 milljónir innflytjenda til viðbótar þeim sem þegar voru komnir. Árið 1948 voru gyðingar minnihluti íbúa í Palestínu.

Á því landsvæði sem nú telst til Íraks höfðu Gyðingar búið frá 6. öld fyrir Krists burð. Þeir litu á Írak sem heimaland sitt, og þar vildu þeir búa. Tilkoma Ísraelsríkis varð til þess að gerbreyta þessari stöðu. Gyðingar í Miðausturlöndum voru nú flokkaðir með Ísrael, með óvininum. Gyðingarnir í Írak voru taldir tilheyra hreyfingu síonista þótt mikill meirihluti þeirra væri það ekki.[51] Þannig hófu gyðingar í grannríkjum Ísraels/Palestínu að flytjast til Ísraels nauðugir viljugir. Síonistar héldu uppi öflugu kynningarstarfsemi strax eftir seinni heimsstyrjöld í Norður-Afríku og víðar í byggðum araba og múslima í heimshlutanum til að laða gyðinga til Ísraels. Auk fjandsamlegs umhverfis vegna atburðanna í Palestínu heilluðust margir þeirra af betri lífskjörum sem þeim voru boðuð, svipað og gilti um flutninga Íslendinga til Vesturheims síðustu áratugi 19. aldar og allt til upphafs fyrri heimsstyrjaldar, þegar væntingar um betri afkomu réðu ákvörðun um flutninga, ekki trúarbrögð.

Talið er að áratugina eftir seinna stríð hafi um 900 þúsund gyðingar flust til Ísraels frá löndum í Asíu og Afríku þar sem þeir bjuggu áður í sátt og samlyndi við aðra íbúa viðkomandi svæðis. Til dæmis fluttust um 60 þúsund frá Íran á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar.

Talið er að um um það bil helmingur íbúa Ísraels séu afkomendur gyðinga frá Evrópu og Ameríku en annar helmingur afkomendur gyðinga frá öðrum heimshlutum, fyrst og fremst grannríkjunum í Asíu og Norður-Afríku.

Palestínumenn njóta sífellt meiri viðurkenningar

Þrátt fyrir allt það sem síonistar hafa lagt á sig til að afmá sögu Palestínumanna og þjóðerni þeirra, njóta Palestínumenn nú meiri viðurkenningar en nokkru sinni fyrr. Palestínumenn, eða fólk af palestínsku bergi brotið, hvar sem það hefur formlegan ríkisborgararétt, eru samtals 14,3 milljónir um allan heim. Sú tala er reyndar svipuð og áætlaður heildarfjöldi gyðinga. Palestínumenn gera sér fullkomna grein fyrir uppruna sínum og þjóðerni, hvort sem þeir búa í Ísrael sem „ísraelskir arabar“, sem flóttamenn á hernumdu svæðunum eða í flóttamannabúðum í grannlöndum, sem íbúar búsettir í Jórdaníu með ríkisborgararétt þar, sem lausamenn með þegjandi samþykki en án félagslegra réttinda í löndum við Persaflóa, eða sem flóttamenn eða ríkisborgarar um heimsbyggðina, svo sem í Bandaríkjunum eða Ástralíu – og á Íslandi.

139 ríki Sameinuðu þjóðanna viðurkenna Palestínu. Ísland er eitt þeirra ríkja, frá 2011. Ísrael nýtur viðurkenningar litlu fleiri SÞ-ríkja, 165 af 193.

Stuðningur Bandaríkjanna

Bandaríkin eru byggð á stjórnarskrá og mannréttindayfirlýsingu þar sem tiltekin eru ákveðin grundvallargildi: Víðtæk mannréttindi, lýðræði, réttarvernd og eignarréttur. Þessi gildi njóta því miður ekki mikillar virðingar við mótun utanríkisstefnu stjórnarinnar í Washington hvað varðar Ísrael.


„Utanríkismálateymi Bidens gerir sér góða grein fyrir áhrifum stuðningssamtaka Ísraels í Washington.“[53]
- Washington Post

„Í fyrsta lagi byggist framgangur bandarískra stjórnmálamanna mikið á fjáröflun eins og alþekkt [er]. Þeir sem hreyfa andófi gegn stefnu Ísraels geti búist við að andstæðingar þeirra í næsta prófkjöri verði mjög vel fjármagnaðir, þetta [er] vel þekkt og ekki umdeilt.“[52]
- Jón Ormur Halldórsson


Þessi mynd úr The Guardian 10.01.24 sýnir að það borgar sig fyrir þingmenn í Washington að vera hliðhollir Ísrael.[54]

Þegar safnað var rökum fyrir innrás Bandaríkjanna og „viljugu“ ríkjanna í Írak 2003 var meðal annars haldið á lofti mannréttindabrotum einræðisherrans Saddams Hussein gagnvart eigin þjóð. Samkvæmt upplýsingum Human Rights Watch var tala Íraka sem drepnir voru af sveitum Saddams frá 1979 til 2003 um 250 til 300 þúsund, eða 1% þjóðarinnar. Saddam var að lokum dæmdur til dauða og hengdur fyrir glæpi sína.

Palestínumenn á hernumdu svæðunum, Vesturbakkanum og Gasa, eru nú um 5 milljónir. Ef við tökum þann fjölda Palestínumanna sem látið hafa lífið vegna aðgerða hersveita og lögreglu síonista á 34 árum – frá 1990 þegar Benjamín Netanyahu komst til valda − þá nálgast sú tala 50 þúsund eða 1%. Skoðum líka  mismuninn á ævilengd þeirra sem eru ófrjálsir, Palestínumanna, og herraþjóðarinnar, Ísraelsmanna. Ævilengd Palestínumanna á hernumdu svæðunum er 8,3 árum styttri. Þarna er Netanyahu búinn að ná Saddam með miklum glans.

Alveg frá byrjun lagði alþjóðasamfélagið áherslu á að Jerúsalem skyldi vera borg bæði Palestínumanna og gyðinga og lúta alþjóðlegri stjórn. Samt hefur það liðist að gengið er á land Palestínumanna og þeim er vísað frá heimilum sínum til að skapa pláss fyrir innrás landtökumanna, sem eru með það á hreinu – rétt eins og Abba Eban hafði eftir Thor Thors − að Guð gaf gyðingum þetta land. Alþjóðasamfélagið hefur horft máttlaust upp á þessar aðfarir. Eins og sagt er áður er Jerúsalem hernumin borg ‒ að minnsta kosti austurhlutinn frá 1967 ‒ og um hernám gilda sérstakar alþjóðareglur, skráðar og samþykktar í Genfarsáttmálanum sem ríki heims hafa heitið að virða frá því á síðari hluta 19. aldar, og undirritaður var af hálfu Ísraelsríkis árið 1951. Ekkert það sem síonistar gera í byggðum Palestínumanna í borginni samræmist þessum alþjóðareglum.

Bandarísk samtök senda miklar fjárhæðir til stuðnings landræningjum, og hefur Biden forseti verið hvattur til að stemma stigu við fjármögnun aðgerða sem ganga þvert á alþjóðalög og samþykktir og ganga beinlínís út á að gera Palestínumönnum ólíft á Vesturbakkanum.

Milljónir Palestínumanna á hernumdu svæðunum eru nánast réttlausir – þvert á alþjóðasamninga. Hálf milljón landtökumanna síonista á hernumdum svæðum, sem voru samþykkt sem svæði Palestínumanna, njóta hins vegar allra sömu réttinda og í Ísrael.

Samkvæmt upplýsingum rannsóknar- og upplýsingaþjónustu Bandaríkjaþings, Congressional Research Service, er Ísrael sá aðili sem hefur fengið mestan fjárhagsstyrk frá Bandaríkjunum frá lokum síðari heimsstyrjaldar, „Samfleytt hafa ríkisstjórnir, í samstarfi við þingið, veitt Ísrael aðstoð sem endurspeglar öflugan stuðning innan Bandaríkjanna við Ísrael og öryggi þess, sameiginleg stefnumótandi markmið í Miðausturlöndum; gagnkvæmar skuldbindingar við lýðræðisleg gildi og söguleg tengsl allt frá stuðningi Bandaríkjanna við stofnun Ísraels árið 1948,“[55] eins og það er orðað svo fagurlega. Upphæð samtals án tillits til verðbólgu 158 milljarðar Bandaríkjadala – sem eru 22 billjónir íslenskra króna á gengi dagsins. Íslensk fjárlög í um 1700 ár.

Fyrir fjárlagaárið 2023 heimilaði bandaríska þingið 520 milljónir dala til „sameiginlegra varnaráætlana Bandaríkjanna og Ísraels“ (þar af 500 milljónir dala til eldflaugavarna). Sprengjuregnið á Gasa er væntanlega kostað með hluta þessara fjárframlaga.

Og á afrekaskrá stjórnenda Ísraelsríkis undanfarin mörg ár er dráp á fjölda starfsmanna Sameinuðu þjóðanna við mannúðarstörf, enda er utanríkisráðherrann, Israel Katz, með stóryrði um Sameinuðu þjóðirnar. Þær hlýða ekki og skilja ekki!

Í Bandaríkjunum eru í gildi lög um að það beri að staðreyna að fjármagn frá Bandaríkjunum sé ekki veitt þeim sem hafa gróflega brotið ákvæði um mannréttindi.[56]

Þessum lögum er ekki beitt samkvæmt orðanna hljóðan þegar Ísrael er annars vegar. Meðal annars hafa ísraelsk stjórnvöld heila 90 daga til að bregðast við fyrirspurnum um mannréttindabrot. Þá er Ísrael eina ríkið, samkvæmt The Guardian, sem á rétt á að ræða slíkar ásakanir við utanríkisráðuneytið í Washington, og það þarf ráðherra eða ráðuneytisstjóra til að setja formlega fram kvörtun vegna Ísraels. [57]

Neitunarvald

Bandaríkin hafa beitt neitunarvaldi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar ofbeldi og mannréttindabrot Ísraelsmanna eru á dagskrá. Bandaríkjastjórn hefur aftur og aftur haft í frammi einhvers konar friðarfrumkvæði – og skal hér ekki efast um að þar hafi raunverulegur vilji búið að baki að hluta til – en í raun hafa þessar tilraunir haft þau einu áhrif að auka landtöku síonista á landi sem alþjóðasamfélagið hafði ákveðið að væri framtíðarsvæði Palestínumanna. Þá hefur Vesturbakkanum verið skipt upp með múr og girðingum og milli svæða eru hlið sem vopnaðir hermenn gæta, þannig að Palestínumenn geta ekki farið á milli byggða í heimasveitum sínum nema fara í gegnum skoðun sem hefur innifalið líkamsþreifingar á körlum og konum við hvert tækifæri og lengir ferðatíma milli svæða sem ekki eru fjarri hvert öðru um marga klukkutíma. Í raun er um að ræða skipulagða hópniðurlægingu − og tækifæri til kynferðislegs ofbeldis gagnvart konum.

UNWRA

UNRWA ‒ á íslensku Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations Relief and Work Agency for Palestine Refugees), stofnuð 1949, sér þeim Palestínumönnum búa í flóttamannabúðum, meðal annars á Gasasvæðinu, fyrir margs konar aðstoð, menntun, læknisþjónustu og oft mat. Í stuttu máli gerir hún flóttafólkinu kleift að lifa þar sem það er ‒ sem eins og í öðrum flóttamannabúðum og á hernumdum svæði er ekki það líf sem frjálsir menn óska sér.

Það var sem áður segir stefna stofnenda Ísraelsríkis að taka yfir það land sem heitir Palestína án Palestínumanna. Að svelta fólk og svipta það nánast öllu er vænleg leið til að fólk leiti annað, yfir landamærin.

Nýverið voru tólf starfsmenn UNWRA ásakaðir um að hafa tekið þátt í hryðjuverkunum í Ísrael 7. október. Sú dagsetning var á síðasta ári, en ásakanirnar voru gerðar að fréttamat 25. janúar, daginn eftir að Alþjóðadómstóllinn í Haag hafði sagt líklegt að verið væri að fremja þjóðarmorð á Gasa.

Þessar ásakanir höfðu ekki verið staðfestar 16. febrúar. [58] En of stór hluti alþjóðasamfélagsins leyfði sér að gleypa agnið og ráðherrar báðum megin Atlantsála kepptust við að segjast mundu hætta að greiða til UNWRA þar til málið skýrðist. Sem sagt. Sekur þangað til sakleysi sannast. Þess er skylt að geta að starfsmenn Flóttamannastofnunarinnar á Gasa eru um 13 þúsund talsins, og er stofnunin annar stærsti vinnuveitandi á svæðinu, á eftir svæðisstjórninni. 

Við lok fyrri heimstyrjaldar var þjóðum heims ljóst að það var þörf á samtökum þjóða til að leysa ágreiningsmál á sem réttlátastan hátt með úrskurði sem væri bindandi fyrir viðkomandi. Sameinuðu þjóðirnar eru byggðar á sömu hugsun. Þetta er sem sagt gagnstætt hnefarétti.

Ísraelsríki var samþykkt sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna árið 1949 eins og skýrt er frá að ofan, og varð til með atkvæðagreiðslu á Allsherjarþingi SÞ.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gert fjölda samþykkta sem varða Palestínu og hernumdu svæðin. Ísrael hefur í verki unnið gegn þessum samþykktum, og flest það sem SÞ og stofnanir þeirra gera og gengur gegn meintum hagsmunum síonista sem eitur í beinum þeirra. Greinin „ Aðför Ísraels að UNWRA og um hlutlausan fréttaflutning“[59] eftir Pál H. Hannesson í Heimildinni 5. febrúar lýsir vel þessum aðferðum síonista.

Gettó Hitlers, gettó Netanyahus − og krafan um samúð

Í baráttu síonista hefur frá upphafi verið gengið út frá því að gyðingar hafi um aldir verið fórnarlömb, og alltaf þurft að verja sig. Saga gyðingasamfélaga, einkum í hinni kristnu Evrópu, geymir mörg dæmi um þetta, og allir þekkja þá ótrúlegu grimmd sem gyðingar voru beittir á tímum nasista.

Hér áður er minnst á Masha Gessen hjá blaðinu New Yorker. Í viðtali við Christiane Amanpour á CNN um greinina „Í skugga Helfararinnar“[60] bætir hann um betur þegar hann gagnrýnir framferði og aðferðir síonista, og bendir á að af þeim 6 milljónum gyðinga sem drepnir voru í seinni heimstyrjöld hafi 1,3 milljónir verið sveltar í hel eða látist af sjúkdómum í gettóum. Hann vekur sérstaka athygli á þessu vegna þess að síonistar noti sömu aðferðir á Gasa.

Þrátt fyrir öll hryðjuverk sín og virðingarleysi gagnvart mannréttindum, eignarrétti og alþjóðalögum hefur síonistum tekist að telja fólki trú um að þeim stafi ógn af mun sterkara afli, og eigi þess vegna rétt á öllum þeim stuðningi og samúð heimsbyggðarinnar sem hægt er að veita.

Í árásum Ísraelshers á Gasa 2008, sem héldu áfram með hléum til 2014, féllu 3.804 Gasabúar, þar af um þúsund ungmenni. 87 Ísraelsmenn féllu, mestmegnis hermenn. Hlutfallið: 1 Ísraelsmaður, 43 Palestínumenn.

Í Evrópu og Norður-Ameríku hefur tilhneigingin verið sú að vegna Helfararinnar verði að styðja síonista á allan hátt. Í Þýskalandi eru í gildi lög sem gera útlægar umræður þar sem varpað er skugga á síonista. Gagnrýni á fjöldamorð síonista er talið vera gyðingahatur.

Fréttamenn drepnir

Í The Guardian 8. desember 2023 segir að alþjóðasamtök fréttamanna telji að 68 fréttamenn hafi verið drepnir á Gasa.

Hinn kunni palestínsk-bandaríski fréttamaður Al-Jazeera-sjónvarpsstöðvarinnar, Shireen Abu Akleh, var drepinn af Ísraelsher meðan hún fylgdist með áhlaupi hersins í Jenin-flóttamannabúðunum 11. maí 2022. Hún var í skotheldu vesti merkt PRESS og með hjálm. Hún var skotin í höfuðið. Ekki leikur nokkur vafi á að þetta hafi verið voðaskot eða að hún hafi lent í skothríð milli aðila.[61]

Bandarísk samtök um öryggi blaðamanna, Committe to Protect Journalists, segja að viðbrögð Ísraelsstjórnar eftir dráp Shireen hafi verið þau sömu og alltaf áður. Samtökin hafa rannsakað 20 atvik þar sem Ísraelsher drap fréttamenn, og saga er sífellt sú sama: Engin ábyrgð tekin.

Síonistar vilja stjórna umræðunni

Sagt er að innræting ísraelskra hermanna auðveldi þeim að strádrepa Palestínumanna, því hún miðist við að afmennska þá. Margar staðfestar frásagnir eru til um ótrúleg illvirki og kuldaleg virðingarlaus viðbrögð gagnvart hryðjuverkum sem þeir hafa framið.

Eins og áður segir voru síonistar duglegir við upplýsingaöflun um aðdraganda Ísraelsríkis og fyrstu ár þess. Þegar fræðimenn biðja um aðgang að skjölum frá þessum tímum er þeim beiðnum hins vegar hafnað þar sem birting þeirra geti skaðað orðspor Ísraels.

Ísraelski sagnfræðingurinn Theodor Katz lýsir með þessum hætti átthagakennslu sinnar kynslóðar: „Við lærðum í skóla um að 1,3 milljónir Palestínuaraba sem voru hér 1948 hafi eiginlega ekki verið til, eða þá að þeir hafi ekki verið mennskir.“[62]

Þeir sem síonistar ráku úr þorpum sínum og yfirgáfu ekki Palestínu urðu flóttamenn innan Ísraelsríkis − flóttamenn í landinu sem hafði um aldir verið þeirra.

Að neita því að fólkið hafi verið hrakið frá landi sínu er að neita því að glæpur hafi verið framinn. En að viðurkenna glæpinn hefur alvarlegar afleiðingar. Það þyrfti að borga Palestínumönnum gríðarlegar upphæðir í bætur til og leyfa þeim að snúa heim til síns uppruna, samanber samþykkt Allsherjarþings SÞ númer 194. Umtalsvert af mannvirkjum, þar á meðal íbúðarbyggingum, frá því fyrir 1948 standa enn uppi og eru í notkun í Ísrael. Eðlilegt væri að greiða fyrir notkun þeirra, að ógleymdum þeim sem hafa verið eyðilögð.

Afneitun atburðanna kringum 1948 var og er stunduð á skipulegan hátt. Þess vegna vissi meirihluti Ísraelsmanna ekki hvað hafði átt sér stað. Þeir sem vissu þróuðu með sér réttlætingarfrásögn. Hafi forfeður þeirra rekið frumbyggja úr landi, þá hljóta þeir að haft fyrir því góða ástæðu! Þeir voru beðnir um að ræða það ekki, því það gæti komið sér illa fyrir Ísrael.

Nýlendustefna síonista

Þeir sem höfnuðu Gyðingum á flótta, stjórnvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum voru sammála um þá lausn að koma þeim fyrir í Palestínu. Þeir sem þar bjuggu voru skiptu ekki máli. Fræðimenn telja flutning gyðinga til Palestínu með dyggum stuðningi Breta bera öll merki nýlendustefnu.

Litið hafi verið á Palestínumenn sem „frumbyggja“ sem ekki höfðu rétt gagnvart „landnemum“ frekar en indíánar í Norður-Ameríku, aborginalar Ástralíu, maori-þjóðin í Nýja-Sjálandi, og – einkum − blökkumenn í Suður-Afríku.

Síonistarnir sem nú eru að koma sér fyrir í nýjum heimkynnum með því að hrekja Palestínumenn frá bústöðum sínum á Vesturbakkanum eru auðvitað ekki landnemar, heldur landræningjar.

Það er verið að ráðast á okkur öll

Það hefur tíðkast að túlka gagnrýni á ofbeldi síonista í Palestínu/Ísrael sem árásir á gyðinga,. Þeir sem hafa gagnrýnt síonista eru úthrópaðir sem gyðingahatarar. Í New York eru samtök sem heita Anti-Defamation League, sem mætti snara sem Samtök gegn ærumeiðingum.

Þau hafa barist með oddi og egg gegn hvers konar gagnrýni á Ísrael. Á vefsetri sínu eru þau sögð leiðandi samtök gegn hatri. Verkefnið sé að stöðva árásir á æru gyðinga og sjá til þess að allir njóti réttlætis og sanngirni.

Slík samtök valda því ásamt áróðursráðuneytum Ísraelsríkis að gyðingar, hvar sem þeir búa í heiminum, eru óöruggir, og því beri þeir á einhvern hátt ábyrgð á síonistum og voðaverkum þeirra, því að í hvert sinn sem framferði síonista er gagnrýnt svara þeir með að gagnrýnin sé árás á gyðinga (hvar sem þeir eru). Með þessu er verið að setja þá sem hafa litla eða enga samúð með verkum síonista í varnarstöðu.

Af svipuðu tagi er sú afstaða stjórnmálamanna, sérstaklega í Bretlandi, að geta ekki skilið á milli samúðar með Palestínumönnum, sem margir hafa, og samstöðu með hryðjuverkum Hamas, sem er fágæt.

En þeir „hafa rétt til að verja sig“. Spurningin er þá hvort þeir sem taka undir það, svo sem þeir íslensku ráðherrar sem hafa tjáð sig um málið, telji að enginn annar hafi rétt til að verja sig. Hvort það eigi að halda áfram að vera einskonar sport landtökumanna á hinum hernumda Vesturbakka að ræna ekki bara landi og bústöðum Palestínumanna heldur drepa þá líka. Ekki fer mikið fyrir fréttum um að þeir sem þá glæpi hafa framið sem aldrei fyrr síðustu mánuði og misseri, hafi þurft að svara til saka.

Nú er svo komið að meirihluti Bandaríkjamanna var samkvæmt skoðanakönnunum hlynnt tillögu um vopnahlé á Gasa í Öryggisráðinu í fyrstu viku desember – þegar fulltrúi Bandaríkjastjórnar beitti neitunarvaldi. Samúð almennings í Bandaríkjunum með Ísrael fer minnkandi, og í mörgum Evrópulöndum er þolinmæði með síonistum á þrotum. ESB-ríkin Spánn og Írland hafa raunar krafist vopnahlés á Gaza frá upphafi átakanna.

Í viðtali á sjónvarpsstöðinni MSNBC 10. desember sagði Jeremy Ben-Ami, forystumaður J-Street, bandarískra samtaka hlynntra Ísrael, að framkoma Ísraelshers samrýmdist ekki gildum gyðinga. Hann sagði stefna núverandi stjórnar Ísraels um mannréttindum höfðaði ekki til yngri kynslóða gyðinga í Bandaríkjunum. Allir íbúar Ísraels, einnig íbúar á hernumdu svæðunum, ættu að hafa sömu mannréttindi. Ben-Ami fordæmdi framkomu landræningjanna á hernumdu svæðunum.[63]

Um síðustu áramót var talið að gyðingar í heiminum væru rúmlega 16 milljónir, þar af 7,1 milljón í Ísrael og 6,5 milljónir í Bandaríkjunum. Í Frakklandi teljast vera 450 þúsund gyðingar, tæp 400 þúsund í Kanada og tæp 300 þúsund í Bretlandi. Næst þessum ríkjum í fjölda gyðinga er Argentína þar sem 175 þúsund gyðingar búa. Samkvæmt Wikipedia-grein eru 29 þúsund gyðingar á Norðurlöndum, um helmingur þeirra í Svíþjóð.[64]

Réttur til að komast til heimalandsins

Um aldamótin munaði ekki miklu að Clinton Bandaríkjaforseti – sem þá var að láta af störfum – næði samningum milli Yassers Arafats, foringja Palestínumanna, og Ehuds Baraks, forsætisráðherra Ísraels, í Camp David. Búið að ganga frá flestum atriðum en ófrágengið hver yrði réttur Palestínumanna til snúa aftur til heimalands síns. Deilur um þetta ollu því ekki síst að upp úr slitnaði. Ísraelsmenn töldu sig enga ábyrgð bera á flóttafólkinu.

Um 750 þúsund manna flúðu 1948. Nú eru skráðir flóttamenn hjá flóttamannastofnun SÞ á svæðinu, UNRWA um 1,5 milljónir.[65] Þeim er stranglega bannað að heimsækja byggðir og byggingar sem þeir eða foreldrar þeirra bjuggu í. Þvert á samþykkt Allsherjarþingsins númer 194.[66] Þriðjungur þessa fjölda býr í flóttamannabúðum við örvæntingarfullar aðstæður á hernumdu landi, Vesturbakkanum og Gasa, eða í Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi.

Í umræðum í Camp David um það sem kallað var tveggja ríkja lausn − var ríki Palestínumanna eiginlega plat. Þeir áttu ekki að ráða landamærum sínum, hverjir kæmu og færu og hverjir fengju að vera. Kemur ekki á óvart að forystumenn Palestínumanna höfnuðu þessu. Í viðræðunum var boðið upp á að bíða með ákvörðun um ákveðin framkvæmdaratriði sem átti að leysa seinni í viðræðum við Ísraelsstjórn. Ætlast var til þess að Palestínumenn bæru trausts til fólks sem hefur grundvallarskoðanir sem ganga gegn markmiðum samkomulagsins og þykir almennt ekki treystandi þegar kemur að frumbyggjum þess lands sem þeir náðu án þess að bæta fyrir það, eða viðurkenna að þeir höfðu ekki rétt á þeirri eignarupptöku.

Horft til framtíðar

Byrjað var á þessari grein vegna greina í íslenskum fjölmiðlum sem studdu málstað Ísraels með rökum sem höfundi þóttu ósönn.

Fortíðin gefur vissulega svör en hugurinn beinist óhjákvæmilega að framtíðinni. Það er ekki hægt að ímynda sér að alþjóðasamfélagið, og þá sérstaklega Bandaríkjamenn, styðji framferði síonista til frambúðar. Gyðingar eru 2,4% Bandaríkjamanna og eins og áður segir, og margir þeirra eru algerlega ósammála framferði síonista. Áralöng innræting með fréttum hliðhollum málflutningi Ísraelsmanna hefur þó haft sína áhrif. Bandarískar sjónvarpsstöðvar vissulega fluttu fréttir um tugi og hundruð palestínskra barna sem hafa verið drepin, en ekki mátti ljúka fréttinni án þess að finna „mót-frétt“ um að þjáningar barna sem leyst hafa verið úr gíslingu Hamas. Þegar á líður ber minna á slíkum „jöfnuði“. Hér á enginn metingur við, en þetta ber þess merki að einhver borgar fyrir þá jafnvægislist að ekki megi bara tala um dráp síðasta sólarhrings og svelti palestínskra barna án þess að birta eitthvað sem vekur samúð með þeim í Ísrael sem áður hafa þjáðst.

Dagblöð á borð við New York Times, The Guardian og Washington Post eru seld í áskrift og auglýsingar eru sífellt minni hluti tekna þeirra. Þau hafa því ekki þurft að hafa stöðugan „tilbúinn jöfnuð“ í fréttaflutningi, þó NYT sé ítrekað ásakað um að birta vafasamar yfirlýsingar síonista[67]. Eigendur blaðsins eru afkomendur gyðinga.

New York Times fékk í desember tíu penna til að skrifa um sýn þeirra til framtíðar. Þar á meðal er fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, ritstjóri rits Gyðinga, Jewish Currents, og fólk með tengsl við aðila, jafnvel báða. Þetta eru einkar fróðlegir pistlar, og hér er hlekkur á greinaflokkinn:

https://www.nytimes.com/interactive/2023/12/12/opinion/gasa-israel-palestinians-plans.html?campaign_id=39&emc=edit_ty_20231213&instance_id=110029&nl=opinion-today&regi_id=45259855&segment_id=152474&te=1&user_id=8a359edc4d2b3b9d063a42d307552ea5

Skoðun höfundar

Það er tími til kominn að Palestínumenn njóti sömu réttinda og síonistar, þess réttar og gilda sem Bandaríkjamenn hafa lagt áherslu á frá árinu 1776, mannréttinda, eignaréttar og lýðræðis.

Hvort sem reynt verður að fara leið tveggja ríkja lausnar, sambandsríkis eða eins ríkis með einni kjörinni stjórn, þarf að ríkja jafnræði, raunverulegt jafnræði, til dæmis til vopnaburðar og búsetu. Best væri að einungis her og lögregla hefðu rétt til að bera vopn. Sé svo þarf engan sérstakan rétt til að verja sig.

Þeir sem vilja taka neikvæðni sem leiðarstjörnu hafa tekið slagorðið From the River to the Sea, Frá ánni Jórdan til sjávar, sem ákall um að reka Ísraelsmenn úr landi og gera landið að bækistöðvum bræðralags múslima, Hamas.

Mikið betri túlkun er að á þessu svæði geti allir lifað saman í sátt og samlyndi, þar sem mannréttindi eru virt.

Hvorki ríkisstjórn Ísraels, Bandaríkjanna eða annarra skulu hafa neitt að segja um það hverjir veljist til forystu meðal Palestínumanna. Ísraelsmenn státa af að minnsta kosti fjórum hryðjuverkamönnum í stóli forsætisráðherra, og núverandi forsætisráðherra er að fara fram úr drápshlutfalli Saddam ussHuHussain.

Sumir þeirra sem komu á friði á Norður-Írlandi voru taldir hryðjuverkamenn og það var talið óhugsandi fyrir helstu menn Breta að taka í hönd þeirra. En drottningin var tilbúin til þess. Þar ríkir friður. Núverandi fyrsti ráðherra Norður-Írlands kemur úr ætt IRA sem voru til skamms tíma hryðjuverkamenn, en nýtur trausts.

Þótt því verði ekki haldið fram að þeir hafi valist til forystu á lýðræðislegan máta njóta ýmsir forystumenn Hamas velvildar íbúa Gasa og Vesturbakkans. Yahya Sinvar, leiðtogi Hamas, og aðrir forystumenn Hamas hafa færri líf á samviskunni en núverandi forsætisráðherra Ísraels. Einn helsti forystumaður Palestínumanna, Marwan Barghouti, sem er liðsmaður í Fatah, ekki Hamas, var fangelsaður árið 2002, ásakaður um morð og þátttöku í hryðjuverkasamtökum. Hann neitaði að verja sig og var dæmdur í langa fangelsisvist. Barghouti nýtur einnar mestrar hylli allra mögulegra leiðtoga Palestínumanna. Til sátta og samninga þarf forystumenn sem njóta trausts eigin fólks, þótt þeir njóti ekki hylli þeirra sem vilja brjóta niður alla möguleika á sanngjarnri lausn til frambúðar. Kerfisbundin morð Ísraelsmanna á forystumönnum Palestínumanna síðustu áratugi hafa þann tilgang að koma í veg fyrir að vilji Palestínumanna, hver sem hann er, komi fram.

Íslendingar útiloki samstarf við illvirkja

Þangað til sanngjarn lausn er í sjónmáli eiga Íslendingar að lýsa því yfir að engin samskipti verði höfð við Ísrael, hvort sem um er að ræða viðskipti, listir (svo sem Júróvisjón) eða íþróttir.

Nýlega lék með Sinfóníuhljómsveitinni Ísraelsmaður. Það er skiljanlegt að forystufólk Sinfóníunnar fjarlægði hluta ferilsskrá hans, en hann kvaðst vera stoltur af að vera Ísraelsmaður og hafa sinnt herskyldu. Slík „ritskoðun“ er í sjálfu sér er góð viðurkenning á því að með því að hafna slíku fólki erum við að hafna mannréttindabrotum og rasisma, þeirra sem haga sér eins og nasistar gerðu. Áður hefur þess verið getið hvaða hugarfar ríkir í her Ísraels. Líkur eru umtalsverðar á því að hver sá sem hefur verið í þessum her hafi komið virkilega illa fram við hernumið fólk.

Við skulum banna viðskipti við Ísrael. Þeim flugfélögum sem sækjast eftir viðskiptum við Íslendinga, verði gert eins erfitt fyrir að tengja beint Ísland við Ísrael og mögulegt er. Æðsti maður RAPYD greiðslumiðlunarinnar hefur lýst yfir að engu skipti hver kostnaður af stríðinu verði í drápum á óbreyttum borgunum.[68] Manni verður óglatt við að þurfa að vera í viðskiptum við þá sem hafa RAPYD sem greiðslumiðlun kreditkorta. Hægt er að reyna að komast hjá slíkum viðskiptum með að velja þá sem ekki eru með RAPYD með því að fletta upp https://hirdir.is/

Munum þó að verulegur hluti íbúa Ísraels er andvígur voðaverkum undanfarinna ríkisstjórna.

Sterkasti leikur íslenskra stjórnvalda til sanngjarnrar lausnar er að segja upp stjórnmálasambandi við Ísraelsríki. Það mundi vekja mikla athygli og verða öðrum ríkjum fordæmi. Þeim sem efast er hollt að rifja upp viðurkenninguna á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

Við skulum kappkosta að kynna afstöðu okkar og fá aðrar þjóðir til liðs við málstaðinn.


Höfundur bjó og starfaði í Miðausturlöndum í tvo áratugi, þar af í þrjú ár í verkefnum fyrir Sameinuðu þjóðirnar, aðallega vegna innrásarinnar í Írak.


Helstu sögulegar heimildir – á ensku:

Eugene Rogan. The Arabs. 2009. − Bandarískur, starfar í Oxford. Ný útgáfa 2018.

Rashid Khalidi. The Hundred Years’ War on Palestine. 2020. − Palestínumaður, fæddur í New York og starfar í Bandaríkjunum.

Ilan Pappé. The Ethnic Cleansing of Palestine. 2006. − Ísraelsmaður, starfar við háskólann í Exeter, Englandi.

Nathan Trall, A Day in the Life of Abad Salama. 2023- Bandaríkjamaður, býr í Jerúsalem.

YouTube: Al Jazeera: NABKA, fjórir þættir.

1.    https://www.youtube.com/watch?v=H7FML0wzJ6A

2.    https://www.youtube.com/watch?v=yI2D5Fsd9lg

3.    https://www.youtube.com/watch?v=5SKECszemmA&t=1639s

4.    https://www.youtube.com/watch?v=0m__A7MlDrk&t=1524s


Neðanmálsgreinar:

[1] Sbr. orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í fréttaannál Sjónvarpsins um árið 2023.

[2] https://www.youtube.com/watch?v=WTQOudBMf7Q&t=18s ‒ Ísrael hefur ekki sérstaka stjórnarskrá.

[3] https://www.nytimes.com/2023/12/10/world/middleeast/israel-qatar-money-prop-up-hamas.html

[4] Í Óslóarsamningunum, sem Ísraelsstjórn Netanyahus hefur síðan fallið frá. Þá viðurkenndi Ísraelsstjórn raunar PLO sem lögmæta fulltrúa Palestínumanna en hefur aldrei stigið frekari skref.

[5] Peter Beinart, Editor at large of Jewish Currents. New York Times 12.12. 2023. https://www.nytimes.com/interactive/2023/12/12/opinion/gaza-israel-palestinians-plans.html

[6] https://www.nytimes.com/2023/12/04/podcasts/the-daily/israel-hamas.html https://www.nytimes.com/2023/11/30/world/middleeast/israel-hamas-attack-intelligence.html

[7] https://www.timesofisrael.com/2-commando-companies-said-diverted-from-gasa-border-to-west-bank-days-before-oct-7/

[8] https://www.foreignaffairs.com/israel/israels-netanyahu-self-destruction

[9] https://cpj.org/2024/03/journalist-casualties-in-the-israel-gaza-conflict/

[10] Revital Madar. „Beyond Male Israeli Soldiers, Palestinian Women, Rape, and War: Israeli State Sexual Violence against Palestinians. 2023. https://doi.org/10.3167/arcs.2023.090105

[11] https://en.wikipedia.org/wiki/McMahon%E2%80%93Hussein_Correspondence

[12] Feitletrun höfundar.

[13] Said: The Question of Palestine (1979), 15‒16. Edward Said (1935−2003), var palestínsk-bandarískur fræðimaður og rithöfundur, prófessor við Columbia-háskóla í New York, helsti upphafsmaður eftirlendufræða. Kunnasta rit hans er Orientalism.

[14] Der Judenstaat. Versuch einer modernen Lösung der Judenfrage. Leipzig og Vín, 1896.

[15] Sbr.: Rashid Khalidi: The Hundred Years’ War on Palestine (2020), 7.

[16] https://www.palquest.org/en/overallchronology?synopses%5B0%5D=30778&nid=30778; https://en.wikipedia.org/wiki/King%E2%80%93Crane_Commission

[17] https://en.wikipedia.org/wiki/Sykes%E2%80%93Picot_Agreement

[18] Skýrslan var kennd við Passefield lávarð, nýlendumálaráðherra Lundúnastjórnar. https://en.wikipedia.org/wiki/Passfield_white_paper

[19] https://en.wikipedia.org/wiki/Peel_Commission

[20] https://en.wikipedia.org/wiki/White_Paper_of_1939

[21] Irgun: Hā-ʾIrgun Ha-Tzvaʾī Ha-Leūmī b-Ērētz Yiśrāʾel (Þjóðarhersveitirnar í landi Ísraels); Lehi:  Lohamei Herut Israel – Lehi (Frelsisliðar Ísraels).

[22] Eugene Rogan: The Arabs (2009), síða 248.

[23] Jewish Commonwealt.

[24] https://en.wikipedia.org/wiki/King_David_Hotel_bombing

[25] Plan Dalet: Master Plan for the Conquest of Palestine. Journal of Palestine Studies 1988, https://www.jstor.org/stable/2537591

[26] Illan Pappé. The Ethnic Cleansing of Palestine. London 2006, bls. 5.

[27] Á ensku: „In each attach a decisive blow should be stuck resulting in the destruction of homes and the expulsion of the population.“

[28] https://www.theguardian.com/politics/2010/jul/27/david-cameron-gasa-prison-camp

[29] https://www.newyorker.com/news/the-weekend-essay/in-the-shadow-of-the-holocaust

[30] https://encyclopedia.ushmm.org/content/en/article/the-armenian-genocide-1915-16-overview

[31] https://www.youtube.com/watch?v=Pb2pYStv8x8&t=2271s

[32] https://thewire.in/world/chart-6407-palestinians-and-308-israelis-killed-in-violence-in-last-15-years

[33] Á e. „Let’s not be intimidated by the world.“ https://mondoweiss.net/2023/11/influential-israeli-national-security-leader-makes-the-case-for-genocide-in-gaza/

[34] https://www.newarab.com/news/israeli-general-praises-spread-disease-gasa

[35] Ian Pappé. The Ethnic Cleansing of Palestine, bls. 100−101.

[36] https://edition.cnn.com/videos/tv/2024/01/10/amanpour-abraham.cnn

[37] https://heimildin.is/grein/20315/sannleikurinn-um-gaza/

[38] https://www.nytimes.com/2024/01/28/world/middleeast/israel-hamas-weapons-rockets.html

[39] https://edition.cnn.com/videos/world/2023/11/20/exp-amanpour-israel-gasa-ehud-barak-fst11201pseg1-cnni-world.cnn

[40] „The case of al-Shifa: Investigating the assault on Gasa’s largest hospital.“ https://www.washingtonpost.com/world/2023/12/21/al-shifa-hospital-gaza-hamas-israel/

[41] https://unric.org/is/thor-thors-skipting-palestinu-og-addragandi-stofnunar-fridargaeslunnar/

[42] Hér er meðal annars vísað til Noams Chomskys, sem er að kyni til gyðingur. https://en.wikipedia.org/wiki/Noam_Chomsky https://www.youtube.com/watch?v=lbWoWSRDCIk

[43] Nýhöfn, Reykjavík 2019.

[44] Árin 1945‒1965 voru fulltrúar 11 ríkja í Öryggisráðinu, en 15 frá 1966.

[45] https://www.youtube.com/watch?v=0m__A7MlDrk&list=WL&index=1&t=780s (15.20)

[46] Lesbók Morgunblaðsins 2. september 1962, 2.

[47] Morgunblaðið 13. september 1962, 1.

[48] How Israel indoctrinates its people w/Miko Peled. The Chris Hedges Report á The Real News Network, 12. janúar 2014. https://www.youtube.com/watch?v=CU0Uc-PKe9Y&t=1677s

[49] https://www.youtube.com/watch?v=8gl04X2Ja3g&t=21s

[50] https://en.wikipedia.org/wiki/There_was_no_such_thing_as_Palestinians

[51] Viðtal við bresk-ísraelska sagnfræðinginn Avi Shlaim, sem er fæddur i Írak. https://www.youtube.com/shorts/lw2CXpPReEA

[52] Jón Ormur Halldórsson í viðtali við Heimildina 26. nóvember 2023. https://heimildin.is/grein/19751/thegar-hillary-clinton-klauf-islenska-rithofundastett/

[53] White House grapples with internal divisions on Israel-Gasa https://www.washingtonpost.com/politics/2023/11/26/biden-white-ho/

[54] https://www.theguardian.com/us-news/2024/jan/10/congress-member-pro-israel-donations-military-support

[55] Google þýðing: US Foreign Aid to Israel, RL33222, 1. mars 2023.

[56] „… where there is credible information that these forces have committed a gross violation of human rights …“ https://www.state.gov/wp-content/uploads/2020/06/PP410_INVEST_v2.1.pdf

[57] https://www.theguardian.com/world/2024/jan/18/us-supply-weapons-israel-alleged-abuses-human-rights

[58] https://www.theguardian.com/world/2024/feb/09/head-of-unwra-says-he-followed-reverse-due-process-in-sacking-accused-gaza-staff

[59] https://heimildin.is/grein/20739/adfor-israels-ad-unwra-og-um-hlutlausan-frettaflutning/

[60] CNN Amanpour 9. desember 2013.211223. https://www.youtube.com/watch?v=YU6kP9UqhGI&t=49s

[61] https://en.wikipedia.org/wiki/Killing_of_Shireen_Abu_Akleh

[62] Katz er kunnastur fyrir rannsóknir sínar á fjöldamorðum í þorpinu Tantura árið 1948, og hefur nánast verið útilokaður frá háskólasamfélaginu í ríkinu vegna þeirra https://en.wikipedia.org/wiki/Tantura_massacre . Ummælin að ofan komu fram í þáttum Al Jezeera, Nakba

[63] https://www.youtube.com/watch?v=TodHvn0tFLM

[64] https://en.wikipedia.org/wiki/Jewish_population_by_country

[65] https://www.unrwa.org/palestine-refugees

[66] Sem áður segir kveða samþykkt Allsherjarþingsins númer 194 frá 11. desember 1948 á um að flóttamenn sem vilja flytja til baka til heimalanda sinna og lifa í sátt og samlyndi við nágranna sína skuli hafa til þess rétt eins fljótt og hægt er.

[67] https://www.youtube.com/watch?v=9wWer4c3htI

[68] https://www.visir.is/g/20232491504d/haettum-vid-skiptum-vid-rapyd-sem-stydur-mord-a-sak-lausu-folki