Sundabrú - valkostur

Umræður um legu Sundabrautar hafa staðið yfir í nær tvo áratugi með hléum.

Í haust var umræðan endurvakin og nú einblínt á tvo valkosti, lágbrú yfir Vogabakka og jarðgöng.

Eftir að hafa lesið Greinagerð Samgönguráðuneytisins og minnisblað hafnarstjóra og tveggja aðstoðarhafnarstjóra sem kynnt var á fundi stjórnar Faxaflóahafna 08082019, þar sem fram kom í fundargerð „lágbrú hefur almennt neikvæð áhrif á þróunarmöguleika Sundahafnar, tekjuþróun hafnarinnar og leiðir af sér fjárfestingarþörf, sem ekki er tímabær í dag.  Að auki er ljóst að lágbrú myndi hafa veruleg og jafnvel afdrifarík áhrif á starfsemi margra fyrirtækja á svæði sem yrðu innan brúar og hefði í för með sér mikinn samfélagslegan kostnað í uppbyggingu nýrra mannvirkja sem á endanum myndi ekki síst lenda á skattgreiðendum.“ þá stóðst undirritaður ekki mátið og skrifaði grein í Kjarnann.

Seinna, þegar starfshópur var skipaður um málið undir forystu Vegagerðarinnar stóðst ég aftur ekki mátið og leit aftur á minnisblað hafnarstjóranna.

Fannst mér fullyrðingar þar vera slíkar og fyrir áhugamenn varasamar að þörf væri á að skoða viss mál nánar.

Í meðfylgjandi bréfi til formanns hópsins Guðmundar Vals Guðmundssonar legg ég áherslu á fullyrðinguna um „…hafnarmannvirki sem ekki er hægt að koma neinu skipi að og skila engum tekjum verður verðlaust og í raun kvöð um viðhald“, að hún megi ekki standa án þess að fram komi hæð undir brú. Við sem erum áhugamenn um hafnir og skip og leggjum leið okkar þar sem skipakomur og legur sjást, vita að allmikið er um komu skipa með lága yfirbyggingu þannig að þau komast undir til þess að gera lágar brýr.

Í þessu sambandi verð ég að geta Önnu Kristjánsdóttur sem tekur góðar myndir af skipum á leiðinni inn í Sundahöfn með Viðey og Viðeyjarstofu í bakgrunni.

Wilson Aveiro, 3605 DWT á leið inn í Sundhöfn

Wilson Aveiro, 3605 DWT á leið inn í Sundhöfn

Ég hef mikinn varhug við fullyrðingum um mögulegt tjón sem minnst á á í minnisblaðinu. Ég spyr um hver eigi að hafa rekstur sinn á Sundahafnasvæðinu, þar sem samkvæmt skjali á vefsíðu Faxaflóahafna kemur fram að helmingur starfsemi er í leigðu húsnæði. Hvað er hafnsækin starfsemi og hver er raunverleg þörf fyrir slíka starfsemi næstu 50 árin.

Sundabrú - valkostur

Í umræðu um legu Sundabrautar og hugmyndar um lágbrú hefur mikið veri lagt upp úr minnisblaði hafnarstjóra Faxaflóahafna frá 8. Október og ummæla formanns hafnarstjórnar af því tilefni.

Minnisblaðið gefur ekki forsendur fyrir ýmsum fullyrðingum svo það er hæpið að byggja neinar ákvarðanir á slíku framlagi án nánari útskýringa.

Því hef ég sett saman atriði sem þarf að mínu mati að útskýra og eða vinna að.

·      Hæð undir brú

·      Skilgreining á hvaða starfsemi telst hafnsækin

·      Tekur lóðaleiga í Sundahöfn tillit til þeirra gæða að vera nálægt aðalhöfn landsins

·      Notkun og mögulegur missir gæða á nefndum lóðum

·      Framlenging Vogabakka, ótímabær fjárfesting?

·      Framtíða eftirspurn eftir landi

Hæð undir brú

Í minnisblaðinu Faxaflóahafna er minnst á hæð brúar (á fyrstu síðu 20 m og síðan21-26 m). Til að umræðan verði markvissari þarf hún að ganga út frá opinni hæð undir brúnna frá yfirborði sjávar við mismundandi sjávarhæð.

MV Jomi, 4257 DWT á leið inn í Sundahöfn

MV Jomi, 4257 DWT á leið inn í Sundahöfn

Ástæðan fyrir þessari tillögu er að verulegur hluti þeirra skipa sem losa á syðsta enda Vogabakka og hafa burðargetu um 3.000 tonn (DWT) hafa lága yfirbyggingu og geta fellt niður ljósamöstur á bakka og yfirbyggingu, sem þýðir lága heildarhæð yfir sjávarborði. Þessi skip flytja timbur til byggingavöruinnflytjenda og gerir nálægð við vöruskemmur uppskipun og flutning í geymslu hagkvæman. Þessi skip eru styttri en 100 metrar.

Það væri gagnlegt að vinna lista um slík skip sem hafa komið til hafnar undanfarin 3 ár, því að ef þau geta átt örugga aðkoma að bryggju undir brúna þá er góður nýtingamöguleiki á þessum hluta Vogabakka.

Líkur eru á að fullyrðing í minnisblaðinu um „… að hafnarmannvirki sem ekki er hægt að koma neinu skipi að…., sé að lýsa ástandi sem þarf ekki að skapast. Og í því framhaldi að upptalning á mögulegum missi tekna að upphæð 720 miljóna þarfnist skoðunar, af hverju er ekki hægt að afgreiða skip norðan brúar.

Það að Eimskip er búið að vera þarna og flytja á milli bakka og húsa, og rekur svipaða starfsemi í Harnarfirði, gerir þessa fullyrðingu skrítna.

Skilgreining á hvaða starfsemi telst hafnsækin

Í ofan nefndu minnisblaði er á engan hátt vísað til skilgreiningar á hafnsækinni starfsemi, en gert ráð fyrir mikilli eftirspurn eftir lóðum.

Þegar svæðið er skoðað nú virðist allur gangur á hvað telst hafnsækin starfsemi og hvaða starfsemi megi hafa á Sundahafnasvæðinu.

Rútubílastöðvar eða Caterpillar verkstæði eru tæpast talin hafnsækin starfsemi?

Lagt er til að skilgreint verði hvaða starfsemi eigi heima í Sundahöfn næstu 100 árin.

Tekur lóðaleiga í Sundahöfn tillit til þeirra gæða að vera nálægt aðalhöfn landsins

Þegar átt er við eftirspurn eftir einhverju sem ekki er óendanlegt, er rétt að huga að hvort landeigandi verðleggi gæðin, þannig að þar verði þeir einir sem eru tilbúnir að borga þann mun á þessum gæðum og öðru landi, eins og Vatnsenda eða Esjumelum.

Hvort þeir, sem eru nær bryggjum, borgi mun meira en þeir sem eru lengra frá en samt innan svæðisins.

Notkun og mögulegur missir gæða á nefndum lóðum

Rætt er um Sundabrú hafi áhrif á starfsemi á lóðunum Kjalarvog 12, 14, 16, sem eru notaðar fyrir geymslu og sölu byggingavara og liggja vel við umferð viðskiptavina, sem koma af Sæbraut.

Ef ekki er hægt að losa farminn fyrir framan vöruhúsin er ekki langt að fara milli norðurenda Vogabakka og húsanna. Ef ekki er næg hæð undir brú er samt vafasamt að telja að húsin hafi misst verulegt notagildi eins og gefið er í skyn í minnisblaðinu.

Lóðirnar 17a og 17 eru væntanleg frystigeymsla Samskipa fyrir uppsjávarfisk sem geymdur er á pöllum í stæðum. Samsvarandi geymsla er stærri frystigeymsla Eimskips í Hafnarfirði sem er fjær bakka. Ljóst er að flest uppsjávarskip og frystiskip hafa hærri yfirbyggingu en svo að komist undir fyrirstöðu í  20-26 metra hæð.

Lóð 19 er Ísheimar, frystigeymsla Samskipa fyrir frosnar sjávarafurðir í hillukerfi með sama notagildi og í frystigeymslu Eimskips á Kleppsbakka. Báðar þessar geymslur geyma vöru sem oft kemur í dráttarvögnum og fer í gámum á markað. Gildi staðsetningar Ísheima breytist því ekki verulega við brúna.

Spyrja má hvort  leigjendur nefndra lóða borga meira fyrir frábæra staðsetningu, og hvort þeim hafi verið lofað bryggjuplássi fyrir skip af vissum stærðum við byggingarnar?

Framlenging Vogabakka, ótímabær fjárfesting?

Í minnisblaðinu er talað um framlengingu Vogabakka sem ótímabæra fjárfestingu.

TEU lýsir burðargetu flutningaskips. Á myndinni má sjá langan, 2 TEU gám og tvo styttri 1 TEU gáma.

TEU lýsir burðargetu flutningaskips. Á myndinni má sjá langan, 2 TEU gám og tvo styttri 1 TEU gáma.

Núverandi skipakostur Samskipa, Helgafell, 900 TEU og Hoffell 500 TEU og systurskip þeirra, Arnarfell og Skaftafell þurfa um 245 metra viðlegu þá daga sem bæði skipin eru í höfn. Hversu marga daga vikunnar þau eru bæði við bryggju þarf að liggja fyrir.

Vaxi þessi rekstur svo að þurfi að tvöfalda flutningsgetuna með 1700 TEU skipum, 170 m að lengd  í stað 900 TEU og að 900 TEU (140 m) skip verði notuð í stað 500 TEU þá verður bryggjuþörf 310 metrar til að afgreiða samtímis 2600 TEU í stað 1400 TEU.

Forsendur fjárfestingaþarfar fyrir 580 metra nýja bryggju utan brúar eru ekki skýrðar.  

Í  minnisblaðinu er minnist á ótímabæra fjárfestingu. Miðað við spá um flutt magn á næstu 40 árum Í KPMG skýrslunni er talið að í dag eru nægilega margir bryggjumetrar og gnótt lands fyrir eina óháða gámaafgreiðslu sem mundi leiða til sparnaðar ekki bara á bryggjumetrum og landi heldur í rekstri, sem gæti leitt til að upp- og útskipunargjöld yrðu svipuð og í Norður Evrópu eða minni en þriðjungur af því sem þau eru í dag.  

Framtíða eftirspurn eftir landi

Sundahafnasvæðið er enn að vaxa með landfyllingum. Það verður um eða yfir 180 Ha í náinni framtíð. Samkvæmt vandaðri úttekt KPMG á svæðinu með tilliti til meginverkefni svæðisins, afgreiðsla gámaskipa og gáma, þarf um 30 Ha svæði undir einn gámavöll fyrir 550.000 TEU á árinu 2040. Við eðlilegan veltuhraða og viðeigandi tækjabúnað er þörfin í kringum 20 Ha.

Ef það er gefið að starfsemi vöruhúsa sem losa innhald gáma inn í hús og afhenda vöru í til dreifingar sé hafnsækin starfsemi, væri ekki  úr vegi að hafa upplýsta umræðu um framtíðar þörf fyrir land  fyrir slíka starfsemi;  að fá KPMG eða aðra slíka til að gera skýrslu um málið.

Útgangspunktur getur verið geymslugeta og nýting  núverandi nútímalegra vöruhúsa. Bera saman núverandi veltuhraða vöru og hvað talinn sé góður veltuhraði.

Þá að reyna með hagsmunaaðilum að kortleggja sem mest af svipuðum innflutningi bæði það sem geymt er á Sundahafnasvæðinu og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Gott væri að fá inn í myndina hversu mikla hækkun lóðaleigu slíkir notendur, núverandi og mögulegir, eru viljugir til að borga til þess að vera þar.

Slík úttekt mundi gefa góða mynd af þörfum fyrir hafnsækna starfsemi. Gera verður ráð fyrir að það er ekki sjálfgefið að menn vilji endilega vera þar, og þá ekki borga mikið meira fyrir það. Erlendis eru geymslusvæði dreifingaraðila nálægt umferðaræðum.

Niðurlag

Með þessu skjali mínu er ekki verið að fullyrða að Sundabrú sé betri valkostur. Til þess að draga þá ályktun þarf mikið betri upplýsingar.

Þetta skjal er í beinu framhaldi af grein sem birtist í Kjarnanum 22. nóvember 2019

 Reykjavík 18. Júní 2020

Páll Hermannsson   

Eftirmáli:

Ég verð að geta þess að ég sótti um stöðu hafnarstjóra, einn af 26 umsækjendum sem lagði vinnu í umsóknina.

Í minnisblaðinu er minnst á drydock þar sem meiningin getur hafa átt að vera dryport.

Mér finnst vanta fagþekkingu á þessa skrifstofu, alla vega að menn viti mun á drydock, sem má þýða sem skipakví, þar sem skipum er fleytt inn í kví og henni lokað og sjó dælt út svo hægt verði að gera við skipið, og dryport, sem er einskonar hafnarstarfsemi inn í landi eða langt frá uppskipunarhöfn þar sem gámar eru fluttir þangað með járnbraut eða bílum. Kostur við dryport er að hægt er að tollafgreiða vöru þar og skila gámum sem eru gjarnan fylltir áður en þeir eru sendir í höfnina þar sem skipin eru afgreidd.

Þá tel ég að höfn eigi að birta stefnumarkandi upplýsingar, eins og hvað sé hafnsækin starfsemi.

Ég hef látið í ljós frekari skoðanir mína á öðrum þáttum í öðrum greinum sem hægt er að lesa á þessarri vefsíðu.